139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

beiting reiknilíkans við fjárveitingar til framhaldsskóla.

506. mál
[17:44]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda þessa umræðu. Ég vil leggja áherslu á að það skiptir meginmáli að hverjum nemanda fylgi fjármagn, hvort heldur hann velur bóknám, iðnnám eða starfsnám hvers konar. Sú upphæð sem fylgir á að vera sú sama hvar sem er á landinu. Aðrir þættir geta hins vegar verið breytilegir og þá yrði tekið tillit til sértækra aðgerða á hverjum stað og í hverjum skóla. Að baki hverjum nemanda, hvort heldur hann stundar bóknám eða verknám, hvort sem hann stundar nám við Menntaskólann í Reykjavík, Menntaskólann á Akureyri eða Menntaskólann á Laugum, þarf að vera fjármagn þannig að hann hafi valið en breyturnar lúti að öðrum þáttum í skólastarfinu.