139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

beiting reiknilíkans við fjárveitingar til framhaldsskóla.

506. mál
[17:45]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Mér finnst skipta mestu máli að rekstrarforsendur hvers skóla séu skoðaðar. Þeir eru ekki svo margir framhaldsskólarnir á landinu að það ætti að vera hægt að skoða hvað þarf að kosta í hvern skóla til að hann geti haldið úti eðlilegri starfsemi. Við verðum að horfast í augu við það að á hinu strjálbýla Íslandi getum við ekki miðað við höfðatölu, það er bara þannig. Aðrar breytur verða alltaf að vera inni í myndinni og mér finnst ekki óeðlilegt að rekstrarforsendur hvers skóla séu skoðaðar.

Við skulum vara okkur á því að tala um hvað hver nemandi kostar. Það er erfið umræða í þeim raunveruleika sem við búum við. Hæstv. ráðherra nefndi hér MR og ME. Ég er til að mynda í þeirri kostulegu stöðu að tvö af börnum mínum hafa útskrifast frá ME og er að vonast til að sú yngsta komist inn í MR, (Forseti hringir.) þannig mun ég spara þjóðfélaginu um 300 þúsund.