139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

beiting reiknilíkans við fjárveitingar til framhaldsskóla.

506. mál
[17:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu og þörfu umræðu um hag framhaldsskólanna á Íslandi. Það er einn af stóru þáttunum í lífsgæðum hverrar fjölskyldu að búa nálægt góðum framhaldsskóla. Það hefur sýnt sig í viðhorfsrannsóknum að aðgengi að góðri menntun er það sem fólk telur einna fyrst upp þegar það velur sér búsetu, það kemur jafnvel framar en atvinna svo merkilegt sem það nú er — ef til er það ekki merkilegt, ef til vill er eðlilegt að hugsa fyrst og fremst um hag barnanna sinna.

Ég var nýverið staddur í Ólafsfirði þar sem einn nýjasti framhaldsskóli landsmanna, Menntaskólinn á Tröllaskaga, er starfræktur. Umræðan um þann góða og þarfa skóla snýst einmitt um aukin lífsgæði íbúa á því svæði, hún snýst um krónur, hún snýst um hag íbúa, hún snýst um það að fólk þurfi ekki lengur að ráðstafa úr eigin vasa tugum ef ekki hundruðum þúsunda á hverju ári til að senda börn sín um langan veg í framhaldsskóla, sem langflestir landsmenn telja sjálfsagðan hlut. Fólk í strjálbýlustu hlutum landsins þarf að leggja út gífurlegar fjárhæðir fyrir framhaldsnámi barna sinna og þess vegna hljótum við að taka tillit til mismunandi aðstæðna við fjárútlát til þessa mikilvæga málaflokks.

Ég vil að lokum spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sjái fram undan eitthvert (Forseti hringir.) gólf í fjárútlátum til þeirra skóla sem eiga erfiðast með að (Forseti hringir.) taka á sig hagræðingu. Er til eitthvert þekkt gólf sem menn hafa fundið í fjárveitingum til þeirra skóla (Forseti hringir.) til að þeir geti staðið undir eðlilegum væntingum?