139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

kennaramenntun.

519. mál
[18:02]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna. Mér finnst afar spennandi að fylgjast með því metnaðarfulla námi sem verið er að skipuleggja í háskólunum tveimur, fimm ára kennaranámi. Menntun kennara skiptir afskaplega miklu máli fyrir skólastarf þannig að við þurfum að fylgjast mjög vel með. Ég er ánægð að heyra að í náminu sé mikill sveigjanleiki og að ekki sé verið að rígbinda neinn við ákveðnar deildir. Það er jafnframt mjög gott að kennarar skuli eiga val á að stunda nám við Háskólann á Akureyri eða Háskóla Íslands.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort fjarnámsumhverfið sem Háskólinn á Akureyri var búinn að byggja það vel upp að fólk alls staðar að af landinu gat verið þar í námi haldi ekki örugglega velli í þessu nýja kennaranámi þar sem Háskólinn á Akureyri lagði dálitla áherslu (Forseti hringir.) á landsbyggðina. Mig langar að heyra aðeins hvernig staðan er.