139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

efling kennarastarfsins.

520. mál
[18:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Við erum öll sammála um að við viljum góða kennara. Við viljum hafa besta fólkið í skólunum. Þess vegna spyr ég m.a.: Hvað hyggst hæstv. ráðherra gera til að efla kennarastarf á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi? Að vissu leyti er búið að fara yfir hvernig við byggjum upp námið innan háskólageirans.

Engu að síður er það svo, og gert var svolítið grín að mér á sínum tíma þegar ég sagði það, að við þurfum að nota kreppuna til ákveðinna tækifæra til að byggja upp skólastarfið og til að halda besta fólkinu í skólunum, grunnskólunum, leikskólunum og framhaldsskólunum. Það kemur að því, þótt þessi ríkisstjórn sé lengi að drattast með okkur upp úr hruninu öllu saman og koma okkur til almennilegra bjargálna, að við viljum þegar aukin þensla verður á vinnumarkaði halda í fólk innan skólakerfisins. Það þýðir ekki að hækka bara launin. Við vitum auðvitað að launakjörin skipta miklu máli en í þeim skoðanakönnunum sem hafa verið gerðar meðal kennara eru ýmsir aðrir þættir sem skipta þá miklu máli í öllu skólaumhverfinu sem slíku.

Ég velti líka fyrir mér hvort ekki sé einmitt núna tækifæri til að fá sveitarfélögin og Kennarasambandið undir forustu eða leiðsögn menntamálaráðuneytisins til að hugsa þessa hluti upp á nýtt. Kjarasamningarnir hafa því miður verið byggðir þannig upp að þeir hafa ekki verið tæki til að koma til móts við pólitískar áherslur. Höfum við stjórnmálamenn ekki gert nóg? Ég er ekki að gagnrýna einn flokk umfram annan. Ég er bara að velta fyrir mér af því að við erum sammála um áherslur í skólamálum, þær eru þverpólitískar, hvort við komum þeim skilaboðum nægilega skýrt á framfæri í kjarasamningum. Þegar sveitarfélög og oft og tíðum ríkið semja við Kennarasambandið hugsum við þá um að kjarasamningarnir endurspegli það sem við erum að reyna að ná fram í gegnum skólalöggjöfina? Ég held að skólalöggjöfin endurspeglist ekkert sérstaklega í kjarasamningum.

Ég vona að menn haldi ekki að ég sé að ráðast á kjarasamningana, Kennarasambandið eða sveitarfélögin. Ég vil að menn hugsi málið kreatíft, ef það má sletta svo, á þessum tímum til að skapa þannig umhverfi að við náum besta fólkinu í skólana. Þarf t.d. að gera það núna vegna lítillar ásóknar í leikskólakennaranám? Hvað getur ráðuneyti menntamála gert? Eigum við að fara í svokallaðar „headhuntings“, svo að maður haldi áfram að sletta, virðulegi forseti, til að fá það fólk sem við sem foreldrar viljum hafa í skólakerfinu? Hvað getum við gert til að allir þeir kennarar sem starfa (Forseti hringir.) innan skólakerfisins, hvort sem er á leik-, grunn- eða framhaldsskólastigi, séu stoltir af því og líði vel í starfi bæði út frá umhverfinu en auðvitað líka út frá launaliðnum?