139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

efling kennarastarfsins.

520. mál
[18:19]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við tölum um eflingu kennarastarfsins og þá erum við vonandi ekki í neinum 17. júní-ræðum því að það er ekki spurning að það þýðir ekki að vera með neinar umbúðir. Til að efla kennarastarfið þarf sjálfsvirðing kennara að aukast verulega og stór hluti af því er að sjálfsögðu stórbætt laun og stórbætt launakjör. Auðvitað skiptir menntun máli, starfsumhverfi skiptir máli en við horfumst í augu við það að nú erum við komin á þann stað að það að verða kennari er fimm ára háskólanám og það verður að meta það til launa. Auðvitað eru kennarar langflestir í vinnu sinni vegna hugsjóna, vegna þess að þeir hafa einstaklega gaman af því að vera með börnum og vilja gjarnan vinna með þeim, en það þýðir ekki að vera með einhverjar umbúðir. Það verður að stórbæta laun kennara en ég get alveg verið sammála ýmsum sem hér hafa (Forseti hringir.) tekið til máls, það má gjarnan taka kjarasamninga kennara verulega upp.