139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

efling kennarastarfsins.

520. mál
[18:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Tónninn er sá sami. Hann er sá að við viljum standa vörð um kennarastarfið og við viljum efla það. Við erum samt öll pínulítið að tipla á tánum í kringum það sem er heit kartafla, er það alltaf, kjarasamninga kennara.

Við vitum að til að hafa gott fólk í skólakerfinu þarf að borga fyrir það. En þá þurfa líka málsaðilar, hvort sem það eru sveitarfélögin eða Kennarasambandið, að þora að stokka upp kjarasamninga sem að mínu mati njörva niður og ramma inn kennarastarfið og skólastarfið í öðrum anda en þeim sem skólalöggjöfin segir. Við verðum að þora að fara í erfið mál og viðkvæm. Við erum ekkert endilega sammála um það, t.d. eigum við að fara í að ræða um frammistöðumat kennara. Ég held að það sé ekki tilviljun að ungir kennarar hrökklast fyrr úr starfi en aðrir. Ég held að við verðum að viðurkenna að þessi jafnlaunastefna sem ríkir í skólakerfi landsins skilar ekki árangri, hún skilar ekki því að við höldum inni unga fólkinu okkar í kennslu. Það er alveg hárrétt, og ég fagna því sem flestir hafa nefnt hér, að endurmenntun og símat kennara skiptir mjög miklu máli. Við verðum að spyrja, vonandi án þess að við förum í einhverja pólitískar skotgrafir: Birtist alls staðar fókusinn á nemandann, sem við erum búin að koma inn í skólalöggjöfina, hvort sem er í kjarasamningum eða starfinu í skólunum og þar með talið að halda utan um kennarastarfið sem slíkt? Með því að fókusera á nemandann fókuserum við sjálfkrafa á góðan kennara því að við foreldrar sem eigum börn í skólum landsins og dásömum guð á hverju kvöldi fyrir það hversu frábæra kennara þau hafa á hverjum degi, þar sem þeir auka lífsgæði barnanna okkar, (Forseti hringir.) viljum gera allt til að þetta fólk haldist í kennarastarfinu. Við viljum gera allt sem foreldrar til að stokka upp kerfið (Forseti hringir.) þó að það kosti einhverja slagi hér og þar.