139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

efling kennarastarfsins.

520. mál
[18:23]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ef við gætum tekið þá umræðu sem er í þessum sal og rætt um auknar fjárveitingar til kerfisins held ég að við gætum verið sammála. Ég held að það skipti máli að horfa á þá samninga sem hafa verið gerðir í þeim tilraunaskólum sem nú eru starfandi og eru dálítið að fara út úr því kerfi sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir nefndi, kerfi sem snýst um mínútur og klukkustundir, prófadaga, kennsludaga og annað slíkt þannig að ég held að þar sé mjög margt að læra. Ég tek fram að ég sat í fræðsluráði Reykjavíkur þegar gerð var sérstök bókun um Norðlingaskóla og sérstakur samningur var gerður sem heimilaði nýtt fyrirkomulag í kjarasamningum og kennslu þar. Það var síðan því miður ekki tekið upp næst þegar nýr skóli var settur á laggirnar. Ég held að það skipti miklu máli að fara í slíka tilraunastarfsemi og losa um þessa hluti.

Það liggur þó fyrir að það er áhyggjuefni hvað við erum aftarlega á merinni þegar kemur að launum og kjörum kennara. Það er hægt að fara út í mjög mikil smáatriði og ræða tíma í kennsluskyldu og annað slíkt sem við leysum ekki í þessari pontu en ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum það, kannski fyrst og fremst þau grundvallaratriði hvernig við náum þessum bættu kjörum ef það er þverpólitískur vilji til þess. Hvaða skilaboð viljum við senda kennurum þessa lands? Ég get tekið undir með öllum þeim sem hér hafa talað, kennarar skipta máli og hafa kannski ekki fengið greitt í samræmi við sitt mikilvæga vinnuframlag.

Síðan eru starfsaðstæður, menntunin og símenntunin. Ég held að menntunin skipti líka máli. Það sem við sjáum í TALIS-könnuninni eru ekki bara launin heldur líka sjálfsmynd kennara sem ræðst ekki aðeins af launum heldur líka af þeirri staðreynd að kennarar upplifa sig ekki sem metna fyrir störf sín. Það er ákveðið samfélagsmál sem við ættum líka að velta fyrir okkur. Hvernig sýnum við mat okkar á þessum störfum í verki? Við gerum það bæði í gegnum krónur og aura, við gerum það líka í umtali um skólana, í forgangsröðun í pólitíkinni. Hvenær eru til að mynda menntamálin á dagskrá (Forseti hringir.) hér í þessum sal og hvernig getum við sett þau ofar á dagskrána?