139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

efling iðn- og tæknináms.

521. mál
[18:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Herra forseti. Það standa öll spjót á hæstv. menntamálaráðherra í dag. Það er vel, menntamálin eiga að vera til eilífðarumræðu í þessum sal og reyndar alls staðar á landinu, svo brýn sem þau eru. Það þarf ekki að fara lengi um landið til að heyra áhyggjur manna af því hversu slælega við stöndum okkur í eflingu iðn- og tæknináms. Nú er svo komið, herra forseti, að fréttir blaðanna eru í æ ríkari mæli um þetta málefni. Ég er með Fréttablaðið frá því í dag sem fjallar um yfirvofandi skort á málmiðnaðarmönnum hér á landi sem ekki einasta stefnir í heldur er farinn að gera vart við sig.

Margir hafa talið Íslendinga hafa lagt ofuráherslu, alltént of mikla áherslu, á bóklegu fögin í uppbyggingu framhaldsmenntunar og háskólanáms en síður á þau fög sem tengjast iðnaði og tækni. Sjálfsagt hafa einhverjar rannsóknir verið gerðar á þessu en almennt er talið að við höfum lagt ólíka áherslu á þessa tvo flokka menntunar. Hvað sem því líður þurfum við að horfa í jafnríkum mæli til þessara þátta við uppbyggingu og endurreisn Íslands. Sá skortur sem er á fólki í þessum nefndu greinum, iðn- og tækninámi, gæti haft það í för með sér að við þyrftum að flytja inn kunnáttufólk frá öðrum löndum til að taka við þeim störfum sem eru fram undan við endurreisn landsins ef við eigum að geta sinnt þeim. Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, segir í Fréttablaðinu í dag, með leyfi forseta, að „ef einhverjar af þeim stóru framkvæmdum sem liggja í kortunum fari af stað á næstunni, verði hér verulegur skortur á málmiðnaðarmönnum“.

Við þurfum að gefa rækilega í í þessum efnum og ég spyr hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort fólkið hennar í því ágæta ráðuneyti sem sinnir þessum málum hafi (Forseti hringir.) skoðað einhverjar raunhæfar leiðir til að efla iðn- og tækninám hér á landi svo sem brýn þörf er á.