139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

efling iðn- og tæknináms.

521. mál
[18:29]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda. Ef við lítum aðeins á þróunina má sjá að nemendafjöldi á framhaldsskólastigi hefur þróast þannig frá 1997 til 2009 að heildarfjöldi nemenda hefur aukist um tæp 28% og á þessu 12 ára tímabili hefur hlutfall milli bóknáms og starfsnáms í raun og veru haldist stöðugt, þ.e. tveir þriðju hlutar nemenda stunda nám á bóknámsbrautum, þriðjungur á starfsnámsbrautum.

Á sama tíma, frá árinu 1998, hafa verið starfandi svokölluð starfsgreinaráð á öllum merginsviðum atvinnulífsins og þau hafa lagt áherslu á að fjölga námstækifærum í starfsnámi á framhaldsskólastigi og þróa nýjar námskrár sem eiga að mæta menntunarþörfum atvinnulífsins. Það má segja að við störfum innan kerfis sem byggt er upp á nánu samstarfi atvinnulífs og skólakerfis, en það er líka ljóst að slíkar aðgerðir einar sér duga ekki til að laða fleira fólk að þessum starfsnámsbrautum framhaldsskóla.

Gildandi framhaldsskólalög sem voru sett 2008 fela í sér ýmsa möguleika til að efla aðsókn í starfsnám. Þar má nefna sveigjanleika í uppbyggingu námsbrauta, áherslu á jafngildi bóknáms og starfsnáms til stúdentsprófs og heimild til viðbótarnáms á framhaldsskólastigi sem finna má í 20. gr. laganna sem gæti orðið, getum við sagt, vísir að sérstöku fagháskólastigi á Íslandi. Við höfum á undanförnum árum fundið vaxandi áherslu hjá nemendum á að eiga greiða leið að starfsnámsbrautum framhaldsskóla til áframhaldandi náms.

Um þessar mundir eru 12 starfsgreinaráð að hefja vinnu við að endurskilgreina hæfnikröfur starfa hvert á sínu sviði. Þær verður að hafa til viðmiðunar við gerð námsbrautalýsinga í starfsnámi og á sama tíma er starfsgreinanefnd að hefja vinnu með ráðuneytinu að undirbúningi, mótun og útfærslu heildstæðrar starfsmenntastefnu. Þetta er í anda þessara nýju laga. Í raun og veru finnst mér merkilegt að maður heyrir til að mynda erlendis að þetta þyki fólki mjög merkileg tenging, þ.e. milli atvinnulífs og skólakerfis, og hefur áhuga á að vita hvað hefur gefist vel í henni og hvað skortir til að hún gangi betur. Mér finnst það nokkuð sem við eigum að hafa hugfast, að þetta er jákvætt og við eigum að byggja á þessu en við þurfum auðvitað að velta fyrir okkur hvað getur skipt máli til að efla þetta.

Á næstu dögum er fyrirhugað hjá mér að skipa nefnd sem á að gera tillögur að efni frumvarps til laga um vinnustaðanámssjóð en vinnustaðanám er mjög mikilvægur þáttur í starfsemi á nánast öllum starfsnámsbrautum framhaldsskóla. Það er löngu ljóst að það þarf að efla þann þátt námsins. Það þarf að skilgreina betur kröfur til fyrirtækja sem sinna vinnustaðakennslu, finna leið til að jafna kostnað milli þeirra og hinna sem ekki bera ábyrgð á slíkri kennslu. Þetta er enn brýnna í núverandi árferði en ella þar sem nemendum í sumum greinum reynist mjög erfitt að komast á samning eða fá tækifæri til að ljúka námstíma sínum sökum erfiðrar stöðu margra fyrirtækja. Þarna eru ákveðin vandamál í kerfinu sem við þurfum að bæta. Það hefur líka verið bent á að það þurfi kannski að endurskilgreina vinnustaðanám þannig að starfsnámið fylgi betur tímunum. Við sjáum að í sumum hefðbundnum fögum sem miðast við það að nemendur fari út á tiltekna vinnustaði hafa orðið miklar tækniframfarir þannig að það er jafnvel hægt að færa vinnustaðina mun meira inn í skólana. Það er jafnvel hægt að veita nemendum fjölbreyttari reynslu af því að vera „á vinnustað“ í skólunum af því að til að mynda tæknin er orðið stafræn að einhverju leyti. Ég nefni sem dæmi ljósmyndanámið sem er löggilt iðngrein þar sem nemendur hafa farið út á ljósmyndastofur, en þetta hefur auðvitað færst að stóru leyti inn í tölvur. Það eru mikil tækifæri í að nýta þessa nýju tækni til að breyta skipulaginu.

Því miður ná allt of margir nemendur núna ekki að klára vegna þess að þeir fá ekki tækifæri til að klára þennan hluta námsins, starfstengda hlutann. Þessir nemendur mælast sem brottfall í tölum hins opinbera. Þeir eru sem sagt búnir með allt sem hægt er að klára innan skólakerfisins.

Út frá umræðunni sem hefur verið núna langar mig að nefna að um þessar mundir er að störfum samstarfshópur fjölmargra aðila, m.a. frá Vinnumálastofnun, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Samtökum iðnaðarins og úr þinginu, til að vinna að því að finna leiðir til að hvetja langtímaatvinnulausa til náms. Þar er sérstök áhersla á verk- og tækninám, tölvu- og upplýsingamennt, listnám, stuttar hagnýtar námsbrautir innan uppeldis- og umönnunargeirans; nám sem ungt fólk kallar eftir.

Ég gæti haldið áfram og aðeins rætt um framhaldsfræðsluna og þróun raunfærnimatsins. Ég ætla að fá að koma inn á það í seinna svarinu en fyrst og fremst held ég að það sé mjög mikilvægt að halda áfram þeirri þróun sem þegar er hafin við að móta þau viðmið um þekkingu í leikni og hæfni í þrepaskiptum viðmiðunarramma um íslenska menntun sem auðvitað virkar saman við menntakerfi annarra landa og skilgreinist út frá sambærilegum viðmiðum, (Forseti hringir.) óháð því hvort um er að ræða bóknám eða starfsnám og óháð því hvar námið er staðsett.