139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

stúdentspróf.

522. mál
[18:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta vera tvíþætt. Við getum rætt um námstíma til stúdentsprófs út frá löggjöfinni og þeim möguleikum sem hún býður upp á eins og hv. þingmaður gerir hér. Við þurfum líka að horfa á þá stöðu að hér er og hefur verið óeðlilega mikið brottfall og þá er ég ekki að tala um nemendur sem ljúka framhaldsskóla á fjórum árum eins og spurt var um heldur nemendur sem ýmist ljúka ekki framhaldsskóla eða eru þar jafnvel í sjö ár eða lengur. Þetta er auðvitað áhyggjuefni. Við sjáum reyndar að fyrstu tölur núna benda til að það dragi úr brottfalli, að það sé sem sagt jákvæð afleiðing hins slæma atvinnuástands sem hér er. En mér finnst stóra áhyggjuefnið vera þetta mikla brottfall og hvernig við getum komið fleirum í gegnum kerfið á umsömdum tíma, á ásættanlegum tíma, þremur árum, þremur og hálfu, fjórum, hvernig sem það er hugsað, að námið dragist ekki lengur en það.

Eins og hv. þingmaður nefndi er í þeim lögum um framhaldsskóla sem vitnað var sérstaklega til skipulag námsbrauta flutt til framhaldsskólanna sjálfra og lögin gera ráð fyrir breytingum á umgjörð skólastarfsins. Þar má nefna upptöku nýrra námseininga, lengra skólaár, skipulagsbreytingar á vinnutíma kennara sem nefndar voru áðan, eins og kennslutíma, prófatíma og skil á því.

Af því að hv. þingmaður nefndi kostnað verður ekki fram hjá því horft að þessi lög miðuðu við að inn í skólakerfið kæmu 1,8 milljarðar sem áttu að fylgja þessum breytingum. Hugsunin var m.a. sú að horfa til nýrra kjarasamninga við kennara en líka ýmissa annarra þátta sem við getum nefnt en hefur líka því miður verið frestað. Ég get nefnt sem dæmi námsbókakostnað nemenda. Ég get nefnt fleiri dæmi sem því miður hefur orðið að fresta út af þrengingum í ríkisfjármálum þar sem staðan hefur ekki verið sú að viðbótin hafi komið, 1,8 milljarðar, heldur hafa verið teknir úr skólakerfinu hátt í 2 milljarðar, í raun og veru sú fjárveiting sem ætluð var.

Af þessum sökum hefur ekki komið til lengingar skólaársins almennt og það hefur ekki verið samið um upptöku nýrra námseininga eða breytts fyrirkomulags á starfstíma kennara. Hins vegar höfum við samið um tilraunakennslu í framhaldsskólum og þar voru nefndir Menntaskólinn í Borgarfirði, sem tók til starfa 2007, þar sem farið var af stað með alveg nýtt verkefni og kemur vel út úr þeirri úttekt sem nú hefur verið framkvæmd á því skólastarfi og ég held að skapi mikla möguleika. Fyrsti hópurinn brautskráðist þaðan vorið 2010. Kvennaskólinn í Reykjavík sem fékk heimild til að skipuleggja nám til stúdentsprófs miðað við þrjú ár og sveigjanleika fyrir þá þyrftu lengri tíma. Þar hafa frá hausti 2009 liðlega 300 nemendur hafið nám til stúdentsprófs sem miðast við nýju námslokin. Fyrsti hópur brautskráist vorið 2012. Og svo Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ sem hefur verið í samstarfi við Kvennaskólann um nýtt skipulag á námi til stúdentsprófs.

Svo vil ég nefna að við höfum verið að taka saman og sjáum að umtalsverður fjöldi nemenda hraðar sér í sínu námi innan fjölbrautakerfisins án þess að það sé skipulagt. Mig minnir að 40% nemenda í Menntaskólanum við Hamrahlíð klári á þremur árum nám til stúdentsprófs innan áfangakerfisins sem býður auðvitað upp á þann sveigjanleika að nemendur stjórni sjálfir námi sínu. Við höfum hins vegar séð að skólarnir sem hafa fengið fjárhagslegt svigrúm til að laga starfsemi sína að hinum nýju lögum hafa skipulagt nám til stúdentsprófs þannig að útskrift sé möguleg á þremur árum. Hins vegar vantar mikið upp á að þessi heildstæða skólalöggjöf sé að fullu komin til framkvæmda. Ljóst er að samningum við kennara hefði þurft að ljúka fyrr og helst að vinna að þeim samhliða mótun og innleiðingu laganna því að fyrirhugaðar breytingar á lagaumhverfinu varða auðvitað starfsumhverfi kennara, fagmennsku og skyldur þeirra. Gerðir voru sérstakir samningar við kennara í tilraunaskólunum, almennir samningar við kennara höfðu ekki verið unnir þegar ég til að mynda tók við embætti og kreppan skall á. Ég held að ekki sé hægt að horfa fram hjá því að það hefur að sjálfsögðu haft áhrif á innleiðingarhraðann. Þessi atriði takmarka möguleika skóla á að laga námskipan sína að hinum nýju lögum. Það er líka mitt mat að það sé gott að hafa tilraunaskólana til að sjá hvernig þeir muni þróa námsframboðið, hvað við getum lært af þeim og að breytingin verði síðan almenn fremur en að við séum að fjölga hægt og hægt í því sem við getum kallað tilraunaskólar. Ég held að það sé betra að reyna að ná breytingunni almennt í gegn þegar þetta aðlögunarferli er liðið.

Við vinnum að því. Við héldum viðamikið málþing með fulltrúum skólameistara, kennara og nemenda þar sem við fórum yfir stöðu innleiðingarinnar í framhaldsskólum og kynnt voru fjöldamörg þróunarverkefni. Ég get sagt að það var mjög jákvæð upplifun fyrir mig að sjá hversu áhugasamir kennarar, skólameistarar og nemendur eru um að byggja upp skólastarf samkvæmt þessari nýju löggjöf, en mér fannst menn líka almennt átta sig á að þær efnahagsþrengingar (Forseti hringir.) sem hafa gengið yfir hafa lengt tímann (Forseti hringir.) sem þetta tekur og það sé mikilvægt að til þess að breytingarnar á skólakerfinu verði farsælar séu þær unnar í samráði við þá sem eiga að framkvæma breytingarnar.