139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

stúdentspróf.

522. mál
[18:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég tel að sú pólitíska ákvörðun sem tekin var að fresta innleiðingu löggjafarinnar hafi verið eins og að pissa í skóinn sinn. Að mínu mati var það algerlega á hreinu af hálfu okkar sjálfstæðismanna að við sögðum að það ætti ekki að skera niður í menntamálum, og nýverið staðfesti formaður Sjálfstæðisflokksins það í ítarlegu viðtali í Frjálsri verslun, af því að það er eins og ég sagði, eins og að pissa í skóinn sinn.

Af hverju er brottfallið langmest á Íslandi? Það er beint samhengi á milli þess að við erum með lengsta tímann til prófs í framhaldsskóla, það er bein tenging þar á milli. Síðan tala menn um mikinn kostnað við innleiðinguna. Já, það var mikill kostnaður, það var m.a. út af því að við ætluðum að taka á iðn- og starfsnámi. Við ætluðum að fara í vinnustaðasjóðinn sem núna er verið að boða frumvarp um, af því að við ætluðum strax í kjölfarið á innleiðingu skólalöggjafarinnar að fara í þetta. Og það að spara þetta og geyma þetta í tvö, þrjú eða fjögur ár er einfaldlega sóun á verðmætum. Það er ekkert öðruvísi.

Við skulum heldur ekki fara í grafgötur með það að ekki hafa allir hagsmunaaðilar verið hlynntir því að stytta námstíma til stúdentsprófs eða breyta kerfinu. Menn hafa unnið gegn því af hálfu kennaraforustunnar en við náðum samkomulagi engu að síður um að þetta væri ramminn á skólalöggjöfinni sem við ætluðum að vinna eftir. Það eru mikil mistök að hafa tekið þá ákvörðun að fresta því. Ég hafði vonað að hæstv. menntamálaráðherra, sem ég veit að hefur mikinn metnað fyrir hönd skólakerfisins, hefði leitað til okkar sjálfstæðismanna því að við hefðum bakkað hana upp í því að halda áfram með innleiðinguna. Við hefðum bakkað hana upp í því að koma með aðrar tillögur til hagræðingar en að fara beint í skólakerfið. Allt ber þetta að sama brunni. Ef við skoðum ekki skólakerfið heildstætt er ekki hægt að taka á ákveðnum málum sem eru okkur kær, m.a. því sem birtist í fyrirspurninni áðan um hvernig við ætlum að efla veg og virðingu kennarastarfsins. Við þurfum aukna fjármuni, við þurfum aukna skilvirkni. Það er til leið (Forseti hringir.) til að hagræða, til að spara, en gera engu að síður íslenskt skólakerfi enn betra en það er í dag.