139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

sveigjanleg skólaskil.

524. mál
[19:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Eftir stendur að það er lögbundinn réttur nemenda að nýta sér þennan sveigjanleika og mér sýnist að ákvörðun ráðherra hafi í raun falið það í sér, fyrir utan hugsanlegt lögbrot, að menn hafi verið að ýta kostnaðinum, til þess að reyna þó að halda í sveigjanlegu skólaskilin, yfir á sveitarfélögin — ég veit ekki hversu mikið samráð var haft við sveitarfélögin hvað það varðar — eða að menn hafi verið að ýta kostnaðinum yfir á foreldrana sjálfa. Ég veit til þess að foreldrar hafa einfaldlega greitt fyrir þessa kúrsa sjálfir og þeir hafi fengið þau tilmæli eða ábendingar frá framhaldsskólunum.

Þá spyr ég: Hvar er hinn jafni réttur til náms þegar kemur að þessu? Það er eitt að hafa fallegan texta í löggjöf og annað að fara eftir honum. Þó að tímabundnir erfiðleikar séu í skólakerfinu vegna efnahagsástandsins sýnist mér að verið sé að fara gegn lögum þegar kemur að þessu.

Annað atriði er í þessu, sem ég held að skipti miklu máli nú þegar við erum að horfa upp á þessar dæmalausu hræringar í skólastarfinu í Reykjavík — og þá vil ég kannski koma að enn öðru máli — en það snýr að eftirliti ráðuneytisins með öllum þeim breytingum sem eru að verða á grunnskólastiginu. Hvaða skoðanir hefur hæstv. ráðherra á ákvörðunum Reykjavíkurborgar um sameiningar? Og við erum ekki bara að tala um sameiningar því að ég er hrædd um að sameiningarnar og þær breytingar sem hafa verið gerðar, án nógu mikils samráðs við hagsmunaaðila eins og foreldra og kennara, hafi það í för með sér að réttindi barna, samkvæmt skólalöggjöfinni, séu ekki uppfyllt. Ég tel því mikilvægt að við fáum það á hreint hvort ráðuneyti menntamála ætli að sinna eftirlitshlutverki sínu (Forseti hringir.) þegar kemur að þessu annars mikilvæga og erfiða máli sem sveitarfélögin standa frammi fyrir.