139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

uppsagnir ríkisstarfsmanna.

550. mál
[19:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Herra forseti. Ríkisvaldið glímir nú við afleiðingar efnahagshrunsins og það birtist meðal annars í miklum hagræðingaraðgerðum er kemur að útgjaldaþætti ríkisins. Það birtist jafnframt í auknum álögum á fólk og fyrirtæki, svo sem eðlilegt er á tímum sem þessum, og það birtist fólki víða á stofnunum í þrengri fjárveitingum sem kallar á uppsagnir og/eða minni vinnu.

Þessar aðgerðir eru eðli málsins samkvæmt afskaplega viðkvæmar og enginn stjórnmálamaður er að gera að gamni sínu þegar kemur að uppsögnum á fólki í mörgum viðkvæmustu málaflokkum ríkisþjónustunnar, svo sem á sviði heilbrigðismála og menntamála og svo mætti lengi telja.

Það er hins vegar að mati þess sem hér stendur afskaplega brýnt að ríkisvaldið, e.t.v. fjármálaráðuneytið eða þar til bærir aðilar, fylgist vel með því hvernig farið er fram í þessum málum, hvernig skorið er niður, hvar er skorið niður, hverjum er sagt upp. Bitna hagræðingaraðgerðir fremur á konum en körlum? Bitna þær fremur á einu landsvæði frekar en öðru? Og er það ef til vill svo að menn skera meira niður fjær sér en nær? Það er mjög mikilvægt að hafa einhvers konar vakt á vegum hins opinbera til að fylgjast með þeim aðhaldsaðgerðum sem nú standa yfir enda eru þessar aðgerðir afskaplega viðkvæmar í eðli sínu.

Ég legg því, herra forseti, fram hér nokkrar spurningar til hæstv. fjármálaráðherra um þetta atriði.

1. Hvað hefur mörgum ríkisstarfsmönnum verið sagt upp störfum frá ársbyrjun 2009 til ársloka 2010 vegna aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum?

2. Hvernig hafa þessar uppsagnir skipst á milli kynja?

3. Hvernig hafa þessar uppsagnir skipst á milli kjördæma?

4. Hvernig hafa þessar uppsagnir skipst á milli starfsgreina (skólar, heilbrigðisstofnanir o.s.frv.)?

5. Hvað hefur mörgum starfsmönnum verið sagt upp í stjórnsýslunni (í ráðuneytum)?

Nú er það vitaskuld svo að hæstv. ráðherra hefur kannski ekki svör við þessu öllu, þó það nú væri, þetta er umfangsmiklar spurningar. En ég set þær ekki síst fram til að vekja athygli á nauðsyn þess að einhvers konar vakt sé sett á laggirnar í þessum efnum og vel sé fylgst með því að niðurskurður á vegum hins opinbera bitni jafnt á fólki frekar en ójafnt, ef við getum sagt sem svo, og er ég þar að tala bæði um byggðir og kyn.