139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

uppsagnir ríkisstarfsmanna.

550. mál
[19:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra las upp athyglisverðar tölur, fækkun um 540 stöðugildi, rúmlega 470 í störfum kvenna á móti rúmlega 70 körlum, og ég held að það segi nóg um hina kynjuðu fjárlagagerð.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra. Við erum að tala um starfslok ríkisstarfsmanna, um skýrslu Ríkisendurskoðunar um mannauðsmál og starfslok ríkisstarfsmanna. Þar er Ríkisendurskoðun að ítreka að einfalda þurfi málsmeðferð við uppsagnir ríkisstarfsmanna og í tengslum við áminningarkerfi sem er innan starfsmannalaganna. Ég vil því inna ráðherra eftir viðhorfum hans gagnvart þeim ábendingum Ríkisendurskoðunar til fjármálaráðuneytisins. Það er í fyrsta lagi að einfalda málsmeðferð við uppsagnir ríkisstarfsmanna, þ.e. endurskoðun á áminningarkerfinu, veita heimild til starfslokasamninga við ríkisstarfsmenn og kanna hvort rétt sé að færa ákvæði starfsmannalaga inn í kjarasamninga. Það væri forvitnilegt að heyra viðhorf ráðherra til þessara atriða.