139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Í svörum hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar í gær kom margt í ljós, þar á meðal um niðurskurðinn og uppsagnir hjá hinu opinbera að búið er að fækka um 540 stöðugildi. Þar af eru 470 konur og einungis 70 karlar. Þetta segir kannski allt um hina innihaldslausu frasa ríkisstjórnarinnar um kynjaða fjárlagagerð því að þarna koma verkin í ljós eins og í svo mörgu öðru.

Það kom margt annað athyglisvert fram í þessu svari, þar á meðal að einungis hefur fækkað um 12 stöðugildi í öllum ráðuneytum, þ.e. eitt í hverju ráðuneyti. Niðurskurðurinn hefur fyrst og fremst farið fram í heilbrigðisstofnununum.

Það kom líka fram að það hefði fækkað um 240 stöðugildi í Reykjavík en í fréttum um daginn kom fram í máli forstjóra Landspítalans að þar hefði 670 starfsmönnum verið sagt upp. Þótt búið sé að fækka þetta mikið á Landspítalanum er búið að ráða annars staðar inn í kerfið í Reykjavík. Þetta segir allt um stefnuleysið.

Síðast en ekki síst kom í ljós að af þessum 540 stöðugildum eru 300 á landsbyggðinni. Allir vitum við hér inni hvert hlutfall landsbyggðarinnar er í opinberum störfum móti Reykjavík. Þess vegna spyr ég hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson hvort hann telji ekki í ljósi þessa svars hjá hæstv. fjármálaráðherra í gær vert að hv. fjárlaganefnd fari sérstaklega yfir það hvernig þessi niðurskurður hefur bitnað á stofnununum, hvernig hann hefur komið niður á landsbyggðinni, hvort menn þurfi ekki að hafa þetta við höndina við næstu fjárlagagerð og rýna vel í þessar tölur þannig að vinnan verði markviss (Forseti hringir.) en ekki eins og fram kemur í þessu svari.