139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Svarið er klárlega já, enda var tilefni þessarar fyrirspurnar minnar sú vinna sem fjárlaganefnd er að fara út í að frumkvæði mínu og fleiri í fjárlaganefnd. Við viljum skoða bæði áhrif fjárlagagerðar á hverjum tíma á kynin og byggðirnar. Svarið við þessari fyrirspurn minni er náttúrlega á margan hátt sláandi. Við tökum eftir því að niðurskurður hins opinbera fer að meginhluta fram úti á landi miðað við þau störf sem eru í boði vegna þess að meginhluti stjórnsýslunnar er vitaskuld í Reykjavík. Svo ber að líta á hitt að konur taka á sig meginþungann í hagræðingu ríkisins. Þess þá heldur þarf að beita hér kynjaðri hagstjórn á næstu árum vegna þess að það skal aldrei vera svo að konur, sérstaklega konur í láglaunastörfum, taki á sig þann niðurskurð sem við þurfum illu heilli að standa í.

Það er mjög mikilvægt akkúrat á þessum tíma að viðhöfð sé vakt af hálfu hins opinbera í þessum efnum til að fylgjast með því hvar og hverjir verða fyrir barðinu á þeim niðurskurði sem við þurfum illu heilli að fara út í, eins og ég gat um. Annað tveggja er að fá meiri hagvöxt eða auka skatta og ég veit að hv. fyrirspyrjandi vill ekki aukna skatta. Þess vegna þurfum við að fara út í hagræðingaraðgerðir, en við þurfum að fylgjast mjög náið með því hverjir verða fyrir þeim. Þess vegna bar ég fram umrædda fyrirspurn og fékk þessi mjög athyglisverðu svör frá hæstv. fjármálaráðherra í gær.

Ég endurtek að það er til fyrirmyndar af hálfu fjárlaganefndar að fara út í þá vinnu sem nú hefur verið ákveðin, að meta áhrif fjárlagagerðar á hverjum tíma, hvernig þau birtast í byggðum landsins og gagnvart (Forseti hringir.) kynjamun og hvernig þau birtast líka gagnvart einstökum störfum.