139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

störf þingsins.

[14:17]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að hann spyr um þetta mál á hverjum einasta fundi allsherjarnefndar og kemur því fyrir í nánast hverri einustu ræðu sem hann flytur á fundum nefndarinnar.

Fyrirspurn hv. þingmanns er því til að svara að þetta mál verður tekið á dagskrá á fundi nefndarinnar. Það er á forgangslista nefndarinnar, bara einfaldlega ekki mjög framarlega. Ég beini því þess vegna til hv. þingmanns að taka þátt í því með mér og öðrum nefndarmönnum að liðka þannig fyrir í störfum nefndarinnar og við vinnslu annarra mála að það geti orðið. Það eru fjölmörg mál á málaskrá allsherjarnefndar brýn og þörf, þetta mál er eitt þeirra. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það er nauðsynlegt að vanda til lagasetningar. Það var reynt að gera það í tilfelli stjórnlagaráðs, allar þær óskir sem hv. nefndarmenn komu með til forustu nefndarinnar — (VigH: Rangt.) ef hv. þingmaður leyfir mér að ljúka svari mínu — það var reynt eftir fremsta megni að fá þá á fund nefndarinnar í þeirri viku og á þeim tíma sem ætlað var til að vinna þetta mál. Það er einfaldlega ekki hægt að lengja vinnslutíma þessa máls hér vegna þess hvernig það er statt í ferlinu. Menn hafa áhuga á að láta ekki verða of mikið rof á þeirri vinnu sem hafin var með þjóðfundi í fyrrahaust og þess vegna vilja menn vinna þetta mál áfram. Ég geri ráð fyrir því að við munum taka umræðu um það hér síðar í dag.