139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

störf þingsins.

[14:22]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Nú stendur sem hæst undirbúningur að aðildarumsóknarferlinu að Evrópusambandinu líkt og t.d. sameiginlegur nefndarfundur utanríkismálanefndar og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar á föstudaginn vitnar til um þar sem samninganefndin fór yfir stöðu mála og rýniskýrsluna sem fyrir liggur.

Nú er nýlokið rýnifundi Íslands og Evrópusambandsins vegna landbúnaðarmála og einnig er nýlokið árlegu búnaðarþingi Bændasamtaka Íslands. Af þessu tilefni vildi ég brýna og skora á bændaforustuna að draga sig ekki út úr aðildarumsóknarferlinu, heldur taka þátt í því af fullum krafti af því að það skiptir öllu máli að við höldum úti fordómalausri og málefnalegri umræðu um áhrif aðildar að Evrópusambandinu á byggðirnar og landbúnaðinn. Því skiptir aðkoma stéttarinnar að samningsferlinu sköpum, en forusta bænda og þing þeirra samþykkti að þeir mundu ekki taka þátt í umsóknarferlinu nema að uppfylltum vissum skilyrðum. Ég skora einfaldlega á þá að taka þátt í ferlinu til enda því að meginmálið er að skila inn í þjóðaratkvæðagreiðsluna eins góðum samningi og kostur er, ekki síst fyrir okkur sem viljum hag sveitanna og dreifbýlisins sem allra mestan.

Þar sem sumir talsmenn bænda sjá fyrir sér að áhrifin á t.d. mjólkur- og kjötframleiðslu yrðu ekki jákvæð er mjög mikilvægt að fara vandlega yfir það með hvaða hætti við getum náð fram markmiðum meiri hluta utanríkismálanefndar Alþingis frá sumri 2009 þar sem álitið mælti fyrir um að við ættum að raska stuðningi við landbúnað sem allra minnst og gæta þess í hvívetna að ná fram þáttum sem standa vörð um greinina og treysta stöðuna þannig að hún geti sótt fram á öðrum og nýjum sviðum um leið og við verjum gömlu greinarnar. Þess vegna vildi ég nota tækifærið hér að nýgengnu þingi Bændasamtaka Íslands (Forseti hringir.) og skora á bændur og bændaforustuna að taka að fullu þátt í því að ná sem allra bestum samningi fyrir byggðir Íslands. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)