139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

störf þingsins.

[14:26]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Eins og svo oft áður eru undir þessum lið tekin fyrir mörg umræðuefni og ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur sem fjallaði um það hörmungarástand sem ríkir nú í Japan eftir þær hamfarir sem þar hafa dunið yfir. Ég vil segja hér og nú að ég tek undir hvatningu hennar og lýsi mig reiðubúna til að standa að öllu því sem við getum gert til að koma þessari vinaþjóð okkar til aðstoðar.

Að öðru, það er alveg makalaust að sitja hér og hlusta á talsmenn og þingmenn stjórnarflokkanna í hverju málinu á eftir öðru vera ósammála. Nú eru það ofurskattarnir (Gripið fram í.) sem eru nýjasta dæmi um það sem þessir stjórnarflokkar eru ekki sammála um — og sem betur fer, segi ég nú bara. Þá er kannski (Gripið fram í.) einhver von til þess að þær gölnu hugmyndir, sem ég vil leyfa mér að kalla, sem birtust hér í síðustu viku, gölnu uppboðshugmyndir á skattlagningarprósentum, verði slegnar út af borðinu. Ég vona svo sannarlega að sú andstaða sem fram kom hjá formanni efnahags- og skattanefndar komi í veg fyrir að þær verði nokkurn tímann að veruleika.

Ég vil velta upp hvert verkefni okkar hér sé. Er ekki verkefnið og eiga ekki áhyggjur okkar fyrst og síðast að beinast að því að fjölga hér fólki á launaskrá, ekki hjá ríkinu, heldur að fjölga fólki í landinu sem þiggur laun, koma fólki af atvinnuleysisbótum yfir á laun, efla hér hagvöxt, efla atvinnutækifæri og atvinnulífið? Um það eigum við að taka höndum saman, hv. þingheimur, og vinna saman að því verki í stað þess að henda hér út (Forseti hringir.) einhverjum hátekjuskattafantaseringum sem munu ekki gera neitt annað en að eyða tíma okkar í vitleysu.