139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

störf þingsins.

[14:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að taka til umræðu náttúruhamfarirnar í Japan og siðferðilega hjálparskyldu okkar Íslendinga, sömuleiðis hv. formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins fyrir þann einlæga stuðning sem var að finna í orðum hennar. Japanar eru í hópi okkar bestu og mestu vinaþjóða, þeir hafa alltaf verið reiðubúnir til að aðstoða okkur þegar í nauðir hefur rekið. Nú síðast var það forsætisráðherra Japans sem fyrstur tók til máls á alþjóðavettvangi eftir bankahrunið og lýsti yfir að Japan væri reiðubúið til þess að leggja fram aukið fé í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að hann gæti tekið þátt í að fjármagna efnahagsáætlun okkar.

Hv. þingmaður getur verið viss um að ríkisstjórnin mun ekki láta sitt eftir liggja. Við höfum fylgst með þessu máli alveg frá klukkan sjö á föstudagsmorguninn þegar ég var í sambandi við sendiherra okkar í Japan. Þetta mál var rætt á ríkisstjórnarfundi í morgun og verður rætt aftur á föstudaginn. Það liggur alveg ljóst fyrir að við munum taka þátt í alþjóðlegu hjálparstarfi með fjárframlögum, og af því að hv. þingmaður nefnir sérstaklega Rauða krossinn fer að öllum líkindum fjárstuðningur okkar í gegnum hinn alþjóðlega Rauða kross. Sömuleiðis var þess sérstaklega getið og þakkað af japönskum stjórnvöldum í fréttaskeytum í dag að Íslendingar hefðu boðið fram rústabjörgunarsveitina. Hún var í viðbragðsstöðu um nokkurn tíma og kann að þurfa að fara aftur í þá stöðu. Það liggur fyrir að fyrir utan truflanir á samgöngum og skort á raforku og erfiðleika í birgðaflutningum vofir yfir að það verði stór eftirskjálfti á næstu þremur sólarhringum og þá kann vel að vera að til viðbótar við þær 17 sveitir sem eru komnar til Japans þurfi fleiri og ljóst er að okkar sveit er í hópi þeirra sem hafa yfir að ráða hvað mestri færni.

Sömuleiðis vil ég að það komi skýrt fram að íslensk stjórnvöld fylgjast mjög vel með Íslendingum í Japan. Við erum líka í sterkum tengslum við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina og fylgjumst með stöðu geislamengunar sem af sögulegum ástæðum er auðvitað ofarlega á baugi í Japan. (Forseti hringir.) Eins og sakir standa er ekki slík hætta á ferðum að það hafi þurft að gefa út ferðaviðvaranir af þeim sökum.