139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

staða atvinnumála.

[14:58]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Rösk tvö ár eru liðin frá því að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við stjórnartaumum á Íslandi. Þegar ríkisstjórnin stóð á tröppum Bessastaða af því tilefni var haft eftir hæstv. forsætisráðherra að þessi ríkisstjórn ætlaði að láta verkin tala. Nú, tveimur árum síðar, er óhætt að segja að efndir ríkisstjórnarinnar hafi fyrst og fremst falist í því að tala, verulega hefur staðið á raunverulegum aðgerðum til hjálpar íslenskum heimilum og fyrirtækjum.

Tilefni þessarar umræðu er grafalvarleg staða í efnahagslífi þjóðarinnar og sú staðreynd að enn er ekki farið að sjást til sólar í atvinnumálum, tveimur og hálfu ári eftir hrun bankakerfisins. Það er löngu tímabært fyrir stjórnvöld að hætta að ala á ágreiningi innan lands um mikilvægar grunnstoðir þjóðfélagsins, eins og t.d. sjávarútvegsmál, hætta að halda fólki stöðugt í fortíðinni heldur setja stefnuna á framtíðina og segja þjóðinni fyrir hvað þessi ríkisstjórn stendur í atvinnumálum — ef nokkuð.

Síðustu dægrin hefur því miður komið berlega í ljós að stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar virðast ekki átta sig á því hvaða þýðingu einfalt og skilvirkt skattumhverfi hefur fyrir fólk og fyrirtæki, að ekki sé talað um makalausar tillögur um að skipta um kennitölu á krónunni. Einnig kemur stöðugt á daginn að efnahagslegt samhengi hlutanna í rekstri þjóðar er mörgum innan dyra framandi. Eða halda menn að illa ígrundaðar breytingar og flækjufætur í skattkerfinu, hvort sem litið er til einstaklinga eða fyrirtækja, hafi ekki bein áhrif á stöðu atvinnumála? Halda menn að hugsanlegir fjárfestar, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir, hugsi sig ekki tvisvar um að fjárfesta hér þegar nánast er uppboðsumræða í skattaumræðunni í landinu?

Sannleikurinn er auðvitað sá að fólk með meðaltekjur þarf nú að búa við nánast 50% skatt af tekjum sínum. Skattpíning þessarar ríkisstjórnar beinist að venjulegu fjölskyldufólki í landinu og hún hefur lamandi áhrif á atvinnulífið í heild sinni.

Hæstv. forseti. Þrátt fyrir fyrirheit ríkisstjórnarinnar um 6.400 störf á miðju ári 2009, þrátt fyrir endalausar yfirlýsingar og nú síðast vinnuhópa alls konar er staðan sú að hér á landi hafa tapast 22.000 störf frá haustinu 2008. Við höfum varið yfir 60 milljörðum í kostnað vegna atvinnuleysistrygginga. Brottflutningur frá landinu er að aukast. Eins og fram kom í fyrirspurnatíma í gær eru engin skýr merki um að hagvöxtur sé að taka við sér. Þó er það vitað að við þurfum hagvöxt upp á allt að 5% til að ná okkur út úr þessum vanda. Atvinnuleysi er því miður að verða viðvarandi vandamál, nokkuð sem ekkert okkar hefði órað fyrir. En það makalausa er að það virðist nánast tabú að tala um atvinnuleysi þegar staðreyndin er sú að það ætti að vera meginverkefni ríkisstjórnar að takast á við það. Hvernig ætlar þessi máttlausa ríkisstjórn að takast á við málið? Af hverju þarf látlaust að stilla atvinnugreinum upp hverri á móti annarri?

Það er hárrétt sem fram kemur í ágætri grein Svönu Helenar Björnsdóttur í Fréttablaðinu í dag, hér vantar skilning á því að uppbygging traustra fyrirtækja taki mannsaldra, nokkuð sem Þjóðverjar hafa löngu áttað sig á, þar sem þróttur atvinnulífsins er reistur á breiðu neti fyrirtækja. Það væri ráð fyrir þessa ríkisstjórn að horfa þangað í stað þess að ala látlaust á tortryggni gagnvart þeirri grein sem hvað traustustum fótum hefur staðið, sjávarútveginum. Við sjáum þegar við lítum yfir sviðið að traust fyrirtækja á Íslandi er á hefðbundnum atvinnugreinum. Þau þarf að varðveita og tryggja stöðugt starfsumhverfi þeirra um leið og skapaður er jarðvegur fyrir nýjar og frjóar hugmyndir.

Virðulegi forseti. Stefna þessarar ríkisstjórnar þegar litið er til umhverfis atvinnulífsins kristallast í þessu: Skattar hafa verið hækkaðir upp fyrir öll þolmörk hjá fólki og fyrirtækjum. Stöðug óvissa hefur ríkt um grundvallaratvinnugreinar þjóðarinnar. Ekki mátti taka mark á samningaleið í sjávarútvegi, heldur þarf að halda áfram með óvissuna og stefna þar með kjarasamningum í hættu. Orkuframkvæmdir eru í uppnámi vegna endalausra tafaleikja stjórnvalda og augljóst er að djúpstæður ágreiningur er víða í stjórnarliðinu þegar kemur að framkvæmdaverkefnum. Stöðugur ótti fjárfesta um inngrip af hálfu stjórnvalda í atvinnustarfsemi og umræða um þjóðnýtingu einkafyrirtækja er stórhættuleg fyrir orðspor þjóðarinnar. Fullkominn skortur er á forgangsröðun brýnna verkefna í landinu eins og umræðan hér á eftir um svokallað stjórnlagaráð er skýrt dæmi um.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum? Hvernig hyggst ríkisstjórnin bregðast við því að atvinnuleysið er að verða viðvarandi? Hvernig hyggst ríkisstjórnin ýta undir hagvöxt í landinu sem er eina leiðin fyrir okkur til að komast út úr vandræðunum? Telur hæstv. forsætisráðherra að sú skattstefna sem hér er stunduð sé til þess fallin að ýta undir fjárfestingar og grósku í atvinnulífinu?