139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

staða atvinnumála.

[15:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Forseti. Með neyðarlögunum voru settar af stað aðgerðir sem miðuðu að því að lágmarka tjónið af falli bankanna fyrir íslenskan almenning og íslenskt efnahagslíf. Hins vegar hefur orðið alger viðsnúningur á þessari stefnu og eins og fram hefur komið í fjölmörgum erlendum fræðiritum, fjármálatímaritum og dagblöðum og í greiningu margra heimsþekktra hagfræðinga eru aðstæður, eða voru a.m.k., á Íslandi óvenjugóðar til að vinna sig út úr kreppunni samanborið við mörg önnur lönd. Þetta tækifæri hefur ekki verið nýtt. Það hefur orðið viðsnúningur á þeirri stefnu sem var í upphafi að skilja að tjón bankanna og tjón almennings. Viljandi og óviljandi hefur tjón færst í auknum mæli yfir á almenning og íslenskt efnahagslíf.

Það eru beinlínis settar hindranir fyrir nánast allar meginatvinnugreinar, alla hugsanlega uppbyggingu í íslenskum atvinnugreinum. Það er sérstaklega vegið að þeim sem enn eru hvað lífvænlegastar. Lítil fyrirtæki fá varla tækifæri til að lifa af. Skattstefnan er slík að telji menn að skattalækkanir hafi verið vandamál í þenslunni, hvað má þá segja um þessa gölnu skattahækkunarstefnu í miðri kreppu? Ríkisstjórnin gerir í rauninni allt þveröfugt við það sem ætti að gera við þessar aðstæður og kemur í veg fyrir þá uppbyggingu sem er nauðsynleg og er möguleg og hefur verið möguleg undanfarin tvö ár. Útflutningsatvinnuvegir Íslands eru á akkúrat þeim sviðum þar sem hvað mestar verðhækkanir hafa verið á síðustu mánuðum. Þetta hefði átt að nýtast okkur til að ná töluverðum hagvexti. Lönd sem voru í miklu verri stöðu en Ísland eru þegar komin í töluverðan hagvöxt á meðan hér ríkir alger stöðnun. Það er tími til kominn að ríkisstjórnin breyti algerlega um stefnu í efnahagsmálum eða það sem er líklega eina lausnin, að hér verði (Forseti hringir.) einhver breyting hvað ríkisstjórn varðar.