139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

staða atvinnumála.

[15:11]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það er eðlilegt að efnt sé til umræðu á Alþingi um stöðu atvinnumála í landinu eins og þau blasa við um þessar mundir. Það er okkur öllum áhyggjuefni að atvinnuleysi hefur ekki minnkað eins mikið og við höfum gjarnan viljað sjá en þó verður að geta þess í þessari umræðu að atvinnuleysið hefur engu að síður orðið mun minna en spár gerðu ráð fyrir strax eftir hrun. Það má ekki gleyma því að við erum að glíma við afleiðingar efnahagshruns sem varð í samfélaginu haustið 2008 og gríðarlega mikil verkefni bíða stjórnvalda sem hafa tekist á við þau. Ég held að við ættum frekar að leggjast öll á eitt við það að reyna að ná árangri í þeim efnum en að tala niður það sem gert er. Nóg er nú samt.

Ég vil segja aðeins vegna umræðunnar um skattamálin að tölurnar tala skýru máli í því efni, skattar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa þrátt fyrir allt farið lækkandi og er nú á árinu 2011 gert ráð fyrir að þeir verði ríflega 25% af vergri landsframleiðslu en voru til að mynda árið 2005 um 33%, í góðærinu undir stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ég held því að menn ættu að fara svolítið varlega í þennan samanburð og þessa umræðu. Það er ekki úr mjög háum söðli að detta fyrir þá sem þannig tala.

Vissulega er atvinnuleysið samt áhyggjuefni. Engu að síður gera spár ráð fyrir því að það fari jafnt og þétt lækkandi á næstu árum og verði kannski komið niður í um 4% árið 2013. Mörg sóknarfæri eru fram undan. Hér hefur þegar verið tæpt á ýmsu, auknum útflutningsverðmætum í sjávarútvegi, það er bjart fram undan í ferðaþjónustu og það gæti orðið metár árið 2011. Ýmsar þróunargreinar blómstra, eins og lyfjaiðnaðurinn, hugbúnaðargeirinn, það hafa verið nefndar virkjunarframkvæmdir eins og Búðarhálsvirkjun, kísilflöguverksmiðja í Helguvík, gagnaver sem var hér til umfjöllunar fyrir ekki svo löngu, kísilhreinsiverksmiðjan í Grindavík. Það eru margs konar aðgerðir, (Forseti hringir.) einnig á sviði erlendrar fjárfestingar, sem stjórnvöld vinna að og vonandi skilar það okkur góðum árangri í baráttunni (Forseti hringir.) gegn atvinnuleysinu á komandi tíð.