139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

staða atvinnumála.

[15:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fjalla hér um eitt afmarkað mál í sambandi við atvinnuuppbyggingu og þá nauðsyn sem er í málinu. Í ljósi þess að við erum nú með stærri veiðistofn í þorski en sést hefur í tvo áratugi er eðlilegt að nýtingarprósentan verði strax færð úr 20% í 23% og sveiflujöfnun beitt við ákvörðun aflamarks á þessu fiskveiðiári. Þar með verði útgefið aflamark í þorski aukið um 35 þús. tonn og verði 195 þús. tonn á yfirstandandi fiskveiðiári, en 200 þús. tonn á því næsta. Hrygningarstofninn mælist nú 300 þús. tonn og fer stækkandi. Slíkar tölur höfum við ekki séð nema með tveimur undantekningum frá árinu 1970, þ.e. í 40 ár.

Þegar ákvörðunin var tekin um mikinn niðurskurð í þorskafla árið 2007 var hrygningarstofninn metinn 180 þús. tonn. Við erum því að tala um aukningu eða breytingu á mati á hrygningarstofni um 66%, um tvo þriðju, á ekki lengri tíma. Á sama tíma hefur sú þróun verið mjög merkjanleg að vænni og eldri fiskur er stærra hlutfall í veiðinni. Svo hátt hlutfall 10 ára þorsks í afla hefur ekki sést frá árinu 1983 en var algengt fyrir árið 1975. Þetta eru mikil og góð tíðindi.

Sömu þróun sjáum við líka í sambandi við viðmiðunarstofninn, þorskinn sem er fjögurra ára eða eldri og sem er grundvöllur kvótaákvörðunar. Sá stofn er nú mældur 846 þús. tonn og talinn verða 902 þús. tonn á næsta ári. Hafrannsóknastofnun mat hann 650 þús. tonn örlagaárið 2007 og áætlaði stærð hans 570 þús. tonn í ársbyrjun 2008. Þetta þýðir að á þeim stutta tíma erum við að tala um breytingar upp á nær 60% ef stærð hans í ársbyrjun næsta árs er lögð til grundvallar við samanburðinn. Til að fá dæmi um stærri stofn þurfum við að fara aftur til ársins 1989 en þá var tillaga Hafrannsóknastofnunar um hámarksafla 300 þús. tonn en er í ár 160 þús. tonn.

Kvótaaukning ásamt því að eyða óvissu í sjávarútvegi mundi skapa að lágmarki nokkur hundruð störf tafarlaust og tekjur ríkissjóðs mundu aukast (Forseti hringir.) mikið. Ef við þurfum ekki tekjur núna, hvenær þá? (Forseti hringir.)

Hæstv. forsætisráðherra: Hvers vegna er þetta ekki gert? (Forseti hringir.)