139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

staða atvinnumála.

[15:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil nú byrja á að þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga málefni. Mér fannst í ræðu hæstv. forsætisráðherra gæta þess sama og ég hef heyrt frá forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar allan þann tíma sem ég hef setið á þingi, frá kosningunum 2009. Hér er allt að gerast, er sagt. Svo eru talin upp tækifæri sem eru í þann veginn að gerast eða munu gerast, en engu að síður er staðreyndin sú að hér hefur ákaflega lítið gerst. Sá hagvöxtur sem spáð var árin 2009 og 2010 og 2011 verður ekki, m.a. vegna þess að þau atvinnutækifæri sem sá hagvöxtur átti að byggjast á kemst ekki til framkvæmda, fyrst og fremst vegna þess að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hafa ekki skýra stefnu, ganga ekki í takt og vilja ekki koma að því nauðsynlega verki að hér verði byggð upp atvinna.

Það er svolítið merkilegt að hugsa til þess, ekki síst núna þegar náttúruhamfarir ganga yfir Japan, að náttúruhamfarir hafa alltaf þau áhrif á Íslandi að hér verður samstaða. Þegar efnahagshamfarir ganga yfir og hrun atvinnulífsins verða hér pólitísk upphlaup. Menn geta ekki staðið saman að því að ganga í þau verk sem mikilvægust eru. Það er mikilvægast að minnka hér atvinnuleysi. Það er mikilvægast að koma í veg fyrir að fólk gangi hér atvinnulaust mánuðum og árum saman eins og við erum farin að horfa upp á í dag. Það eru öfugir hvatar sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Hún dregur úr möguleikum fyrirtækja sem fyrir eru til að fjárfesta og hægagangur í endurreisn bankanna hefur m.a. valdið því að þegar menn ganga þar inn í dag með góðar hugmyndir treysta bankarnir sér ekki til að lána nema 30, 40, að hámarki 50% í góð atvinnutækifæri. Á sama tíma eru þessir bankar — þetta eru bankarnir sem eru í eigu okkar, ríkisins — tilbúnir til að lána fólki sem ætlar að byggja sumarhús 60%. (Forseti hringir.) Það er eitthvað mikið að. Það vantar skýra stefnu og ástæðan (Forseti hringir.) er sú að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) hefur ekki þá skýru stefnu.