139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[16:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þá langar mig til að spyrja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur hvernig hún meti það að hægt sé að koma með upplýsingar á báða bóga sem eru jafnvígar og hlutlausar. Til dæmis greiðum við bráðum atkvæði um Icesave. Flestallir sem ég gat um, ASÍ, SA og nánast allir málsmetandi aðilar í þjóðfélaginu, eru stjórnvaldsins megin. Seðlabankastjóri sagði á fundi með hv. nefndum þingsins að hann ætlaði að fara í „road show“, þ.e. að selja íslensku hlutabréfin ef við segðum já en annars myndaðist óvissa. Mjög margir hafa varað þjóðina við því að segja já, en það hefur lítið verið rætt um kosti þess að segja nei. Til dæmis kunnum við — og mundum mjög líklega gera — að vinna málið og ekki þurfa að borga neitt. Hvernig ætla menn að koma á jafnvægi milli beggja sjónarmiða þegar ríkisvaldið sjálft fjármagnar þetta? Hver á að meta það hvort kosningarnar séu ógildar vegna þess að það er skekkja í kynningu á sjónarmiðum þeirra sem vilja segja nei og hinna sem segja já?

Nákvæmlega sama má segja ef við skyldum greiða atkvæði um aðild að Evrópusambandinu. Evrópusambandið er með gífurlega peninga nú þegar í styrkjum til háskólasamfélagsins, í beinum áróðri til að kynna íslenskum ráðamönnum og öðrum kosti þess að vera í Evrópusambandinu. Hvernig ætla menn að koma með peninga á móti til að sannfæra fólk um að það sé ekki gott fyrir Ísland að vera í Evrópusambandinu? Sagan hefur sýnt okkur að langvarandi aðild og tengsl við ríki í Evrópu hafa ekki fært þjóðinni neina hamingju, síður en svo, en spurningin er: Hvernig á að tryggja að þetta sjónarmið sé kynnt?