139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[16:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Frumvarpið sem hér liggur fyrir hefur tekið nokkrum og raunar allverulegum breytingum frá því það kom til umræðu fyrst í þinginu fyrir fáeinum dögum. Tilkoma frumvarpsins er, eins og hv. þingmenn muna, að allsherjarnefnd bárust ábendingar um að annmarkar kynnu að vera á gildandi lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur sem samþykkt voru síðasta sumar. Það leiddi til þess að stærsti hluti allsherjarnefndar flutti frumvarp til breytinga á þeim lögum í ljósi þess að unnt yrði að lagfæra augljósa ágalla fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fram á að fara 9. apríl. Um það var allgóð samstaða að ganga í það verk og reyna að lagfæra þessa lagasetningu með það að markmiði að þjóðaratkvæðagreiðslan 9. apríl, sem í öllum skilningi er mjög mikilvæg, geti gengið sem best fyrir sig og hættan á því að lagalegir annmarkar eða vandamál komi upp verði eins lítil og hægt er.

Án þess að fara ofan í smáatriði málsins vil ég geta þess að það varð stefnubreyting í störfum nefndarinnar þegar farið var að vinna með útfærslu einstakra tillagna í þessu sambandi. Niðurstaða þess meiri hluta allsherjarnefndar sem undir nefndarálit og breytingartillögur skrifar er sú að hverfa hvað talningu atkvæða varðar frá því fyrirkomulagi sem almennu lögin um þjóðaratkvæðagreiðslu frá síðasta sumri gerðu ráð fyrir, þ.e. að talið væri á einum stað og undir handleiðslu landskjörstjórnar, en þess í stað verði notað fyrirkomulag sem er sambærilegt við það sem á sér stað í alþingiskosningum þar sem talið er í einstökum kjördæmum og yfirkjörstjórnir gegna lykilhlutverki við stjórn þess verks.

Þessa breytingu styð ég. Ég held að þrátt fyrir að mörg ágæt og mörg málefnaleg sjónarmið hafi komið fram á síðasta ári um að ekki væri ástæða til að skipta landinu upp þegar um væri að ræða þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir allt landið þar sem allir hefðu jafnan atkvæðisrétt, að skipta því eftir kjördæmum. Það voru ýmis áhugaverð sjónarmið sem komu fram í því en þá er það þannig þegar við stöndum frammi fyrir því að takast á við þjóðaratkvæðagreiðslu innan fárra vikna er mikilvægt að reyna að velja fyrirkomulag sem góð reynsla er á, sem hefur gengið vel og lágmarka þannig hættuna á einhverjum vandkvæðum eða ágöllum sem leitt gætu til vandræða við framkvæmdina.

Þarna er um að ræða ákveðna meginbreytingu sem ég styð og er höfuðástæða þess að ég undirritaði nefndarálitið og styð þær tillögur sem þar er að finna.

Ég og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson undirrituðum nefndarálitið reyndar með fyrirvara. Sá fyrirvari lýtur fyrst og fremst að öðru álitamáli sem fjallað er um í frumvarpinu og breytingartillögum við það, en snýr að kæruleiðum sem þar er fjallað um. Við veltum því sjónarmiði upp hvort nokkur ástæða væri til að breyta því fyrirkomulagi sem áður var gert ráð fyrir, að kærur vegna kosninganna gætu borist til Hæstaréttar. Frumvarpið eins og það lítur út gerir ráð fyrir að kærur geti farið frá kjördæmum og yfirkjörstjórnum til landskjörstjórnar sem úrskurði þá endanlega þar um, þó eins og kemur fram í nefndarálitinu að alltaf sé hægt að bera ágreiningsmál undir dómstóla með almennum hætti samkvæmt almennum reglum.

Við vorum spurðir í nefndinni og spurðum okkur sjálfa hvort ekki væri nóg að hafa það fyrirkomulag, hvort ekki væri öruggur háttur á þessu, að komi ágreiningsmál til yfirkjörstjórnar og sætti kjósandi sig ekki við niðurstöðu þar sé hægt að bera það undir dómstóla. Þá má segja að hefðbundin dómstólameðferð í kjölfar slíkrar kæru eða málshöfðunar muni vafalaust leiða til vandaðrar niðurstöðu. Það er hins vegar, eins og við bentum á í nefndinni, ákveðin hætta á að málsmeðferðin muni eða geti tekið nokkuð langan tíma.

Við föllumst auðvitað á það sem kemur fram í nefndarálitinu, að ætla má að möguleikar til flýtimeðferðar fyrir héraðsdómi verði nýttir en engu að síður er meiri hætta á því að mál taki lengri tíma ef fara þarf fyrir tvö dómstig en ekki eitt. Þarna vegast því á ákveðin sjónarmið. Annars vegar er það spurningin um að hafa kæruleiðirnar og póstana sem hægt er að kæra eða bera réttarágreining undir sem flesta og svo hins vegar ákveðin skilvirknissjónarmið sem snúa að því að niðurstöður kosninganna séu ekki í lausu lofti lengi. Þetta var fyrirvarinn sem við hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson höfðum fyrst og fremst á þessu máli.

Önnur álitamál sem hafa komið upp í þessum umræðum eru ekki sérstök vandamál í mínum huga. Ég vil þó nefna ákvæðið sem í breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar hljóðar svo: „Gallar á kosningu leiða ekki til ógildingar kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.“ Svipuð ákvæði eru þekkt í kosningalögum okkar. Þarna er ekki um neina nýbreytni að ræða. Orðalagið kann að vera eitthvað misjafnt, en ég mundi ætla að jafnafdrifarík ákvörðun eins og að ógilda kosningar hljóti alltaf að styðjast við eitthvert mat á því hvort gallarnir séu svo alvarlegir að þeir geti verið til þess fallnir að hafa áhrif á úrslitin.

Ég ætla ekki að fara að þessu sinni langt út í umræður um ógildingu stjórnlagaþingskosninganna fyrir skömmu, en ég held að ákvörðun Hæstaréttar verði ekki lesin öðruvísi en svo að þeir mörgu og í sumum tilvikum veigamiklu annmarkar sem voru á framkvæmd þeirra kosninga hafi verið til þess fallnir að hafa áhrif á niðurstöður þeirra kosninga þó að auðvitað væri ekkert sannað af eða á í þeim efnum. Þetta orðalag er vissulega með sama hætti. Ég skil það þannig að það lúti að þeirri túlkun að galli eða vandamál sem upp kemur verði að vera til þess fallið að það geti haft áhrif á úrslit kosninga. En ég álít ekki að þennan texta beri að skilja sem svo að það þurfi að sanna að galli hafi leitt til einhverra tiltekinna úrslita eða þess að úrslitin urðu með öðrum hætti en áttu að vera.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, hæstv. forseti. Ég vil að lokum segja að við þurfum núna, einfaldlega vegna þess að þjóðaratkvæðagreiðslan á að fara fram eftir tæpan mánuð, að hafa nokkuð hraðar hendur við afgreiðslu málsins til að sem fæstir lausir endar séu fyrir hendi varðandi þann lagalega grundvöll sem þjóðaratkvæðagreiðslan á að byggja á. Við þurfum að leysa þessi vandamál hratt.

Hitt er svo annað mál að þær eru umræður sem við höfum átt í allsherjarnefnd að undanförnu, bæði í tengslum við þetta frumvarp og reyndar fleiri mál, gefa auðvitað tilefni til þess að umræða sé tekin á vettvangi þingsins um tæknilega útfærslu kosningareglna í miklu víðara samhengi vegna þess að við erum með mismunandi kosningareglur í tilviki mismunandi kosninga. Í sumum tilvikum rekst þetta á, í sumum tilvikum eru og hafa komið fram, t.d. af hálfu kjörstjórnarmanna á undanförnum árum, ábendingar um atriði sem þyrfti að lagfæra, hrein tækniatriði, ekki atriði sem eiga að þurfa að valda einum pólitískum ágreiningi eða snúast með neinum hætti um einhverja stefnu, heldur bara hrein tækniatriði. Ég minnist þess að á síðustu tveimur til þremur árum hefur þessi umræða af og til skotið upp kollinum, en við erum alltaf að reyna að bjarga hlutunum þannig að það sem á að gerast í næsta mánuði gangi upp og höfum þess vegna ekki gefið okkur tíma til að fara í heildarskoðun að þessu leyti.

Ég vil ljúka máli mínu með því að hvetja til þess að við í allsherjarnefnd eða annars staðar á vettvangi þingsins tökum umræðu um það hvernig hægt er að lagfæra kosningalöggjöfina, hina mismunandi bálka sem gilda um mismunandi kosningar, út frá tæknilegum atriðum, út frá lögfræðilegum og framkvæmdalegum atriðum sem þurfa að vera í lagi alveg óháð því hvort við tökum stærri ákvarðanir sem varða eða eiga sér rót í einhverri pólitískri stefnu eða hugmyndafræði.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta núna er sú að við höfum kannski ekki tækifæri til þess að fara jafngaumgæfilega yfir þetta mál eða skoða jafnmarga þætti í sambandi við þessi þjóðaratkvæðagreiðslulög núna eins og kannski hefði verið tilefni til. En ég vildi halda þessu sjónarmiði til haga um leið og ég legg áherslu á að við reynum að sníða vankanta af lagasetningunni eins og hún er í dag þannig að þjóðaratkvæðagreiðslan 9. apríl, sem er mjög mikilvæg og afdrifarík, geti farið sem allra, allra best fram.