139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[16:26]
Horfa

Frsm. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir framsögu hans.

Það stendur í 13. gr. laganna um þjóðaratkvæðagreiðslur, sem nú er verið að breyta, að kjósandi geti sent kæru um ólögmæti þjóðaratkvæðagreiðslu, aðra en refsikærur, til Hæstaréttar eigi síðar en sjö dögum frá því að ráðuneytið auglýsti úrslit atkvæðagreiðslunnar. Landskjörstjórn veiti Hæstarétti umsögn um atkvæðagreiðsluna og að fenginni umsögn landskjörstjórnar geti Hæstiréttur ákveðið að ógilda niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar ef verulegur ágalli hefur verið á framkvæmd hennar sem ætla má að hafi áhrif á niðurstöðu hennar.

Í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar með því frumvarpi sem nú liggur fyrir er eftirfarandi breyting lögð til, með leyfi forseta:

„5. gr. orðist svo:

13. gr. laganna orðast svo:

Kærur um ólögmæti atkvæðagreiðslunnar, aðrar en refsikærur, skulu sendar landskjörstjórn til úrlausnar eigi síðar en tveimur dögum fyrir fund þann sem getið er um í 1. mgr. 10. gr.

Gallar á kosningu leiða ekki til ógildingar kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.“

Hér er búið að leggja til nýja lagagrein í frumvarpinu sem fellir núgildandi 13. gr. úr gildi. Þess vegna gengur breytingartillaga mín út á það að fella úr frumvarpinu þessa 5. gr. sem ég var að lesa því að hvergi er minnst á Hæstarétt í greininni.

Svo er í löngu máli fjallað um kæruleiðir í nefndaráliti meiri hlutans og þar kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur því til að í 13. gr. laganna verði kveðið á um að kærur um ólögmæti atkvæðagreiðslunnar, aðrar en refsikærur, skuli sendar landskjörstjórn til úrlausnar eigi síðar en tveimur dögum fyrir fund þann sem getið er í 10. gr.“ (Forseti hringir.)

Hér, virðulegi (Forseti hringir.) forseti, er búið að taka út (Forseti hringir.) alla aðkomu Hæstaréttar að málinu. (Forseti hringir.)