139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[16:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég lýsti því í ræðu minni að það var akkúrat þetta atriði sem gerði það að verkum að ég undirritaði nefndarálitið með fyrirvara. Ég vek hins vegar athygli á því að þrátt fyrir að landskjörstjórn hafi úrskurðarvald um kærur sem berast til hennar breytir það ekki þeim rétti kjósanda eða frambjóðanda að bera ágreiningsmál undir dómstóla. Verði sú dómstólaleið, svo maður noti vinsælt hugtak, er það auðvitað Hæstiréttur sem hefur síðasta orðið um það.

Ég vil í þessu sambandi minna á að þegar lögin um þjóðaratkvæðagreiðslur og lögin um stjórnlagaþing voru sett á síðasta ári var gert ráð fyrir miklu viðameira framkvæmdahlutverki landskjörstjórnar en áður hafði verið, m.a. með því að talning færi öll fram á vegum landskjörstjórnar í staðinn fyrir að talið væri í kjördæmum eins og við þekkjum úr eldri kosningum. Þetta gerði það að verkum, ef ég man rétt, að þegar umræða spratt um kæruleiðir í sambandi við þessi lög, annars vegar um þjóðaratkvæðagreiðslurnar og hins vegar um stjórnlagaþingið, þá fóru menn að velta fyrir sér að ef landskjörstjórn er svona virk í sambandi við framkvæmdina, m.a. með talningunni, þarf þá ekki að vera einhver annar aðili sem hægt er að kæra til?

Núna þegar við erum að færa verkefnið að stórum hluta aftur til yfirkjörstjórnanna breytist þessi staða landskjörstjórnar. Það gerir það að verkum að ég hef verið tilbúinn til að hugleiða breytingar í þessu sambandi en þó auðvitað með það (Forseti hringir.) alveg skýrt að ágreiningsmál verði alltaf hægt að bera undir dómstóla.