139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[16:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get svarað þessu stutt. Jú, ég tel að við eigum að vanda lagasetninguna í þessu og hafa eyðurnar eins fáar og hægt er og reyna eftir því sem við best getum að sjá fyrir hvaða vandamál geta komið upp og finna lausnir á þeim í lagasetningunni. Ég held að það hljóti að vera sameiginlegt markmið okkar vegna þess að ég held að við hljótum öll að átta okkur á því hversu mikið er í húfi. Kosningar, framkvæmd kosninga og traust á kosningum og niðurstöðum kosninga er auðvitað alveg gríðarlega mikilvægt. Ég held því að við hljótum öll að reyna að leggja okkur fram við að finna lausnir í því sambandi.

Varðandi tillögu hv. þingmanns ætla ég ekki að svara henni að svo stöddu en tek undir þau meginsjónarmið að við verðum að gæta okkar alveg gríðarlega vel í þessu sambandi og stíga varlega til jarðar og átta okkur á því að ef við gerum eina breytingu getur það kallað á breytingar annars staðar í lagatextanum eða öðrum lögum. Við verðum auðvitað að passa upp á að lenda ekki í einhverjum vandræðum með það.

Hvort heppilegt sé að kjósandi geti kært beint til Hæstaréttar eða hvort mál eigi að fara til landskjörstjórnar og síðan eftir atvikum til dómstóla ef máli er stefnt þangað, þá er áhyggjuefni mitt fyrst og fremst tímaþátturinn og skilvirknin, því að um leið og við viljum tryggja réttaröryggi (Forseti hringir.) þarf líka að vera ákveðin skilvirkni í þessu svo ekki dragist allt of lengi að fá úrslit í málum af þessu tagi.