139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[16:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort ekki sé ástæða til að hv. allsherjarnefnd skoði hvort ekki þurfi að gæta þess að sjónarmið og persónur í kosningum almennt fái notið hlutlausrar kynningar, þess vegna frá báðum aðilum, og að séð sé til þess þegar veitt er opinbert fé til kosninga að jafnt sé skipt þannig að annar aðilinn fái ekki þúsundir milljóna, eins og í sambandi við Evrópusambandsaðildina, en hinn aðilinn sitji uppi með smáframlög félagsmanna og kannski pínulítinn styrk. Þarf ekki að gæta að jafnræði í peningaaustri til mismunandi skoðana og eins að opinberir aðilar, t.d. Ríkisútvarpið, leggist ekki á sveif með öðru sjónarmiðinu heldur gæti þess að hitt sjónarmiðið komist líka að?

Eins og ég gat um áðan hef ég orðið sérstaklega var við þegar rætt er um nei-ið við Icesave-samningunum í útvarpinu að það leiði til allsherjarskelfingar af því að við töpum hugsanlega málinu og þá gerist eitthvað voðalegt o.s.frv. Eins og ég sagði áðan man ég ekki til þess að talað hafi verið um hvað gerist ef við vinnum málið sem þó eru töluvert miklar líkur á að mati flestra lögspekinga. Það væri gaman ef Ríkisútvarpið færi nú í gegnum þann feril allan: Við vinnum málið, við hreinsum mannorðið um allan heim o.s.frv. og borgum hvorki evru, pund né krónu.