139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[16:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir mjög margt í vangaveltum hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég held að það sé mikilvægt þegar um er að ræða þjóðaratkvæðagreiðslu að a.m.k. sé stuðlað að því að lágmarkskynning fari fram á þeim málstað sem um er að ræða. Það er kannski erfitt fyrir hið opinbera að tryggja fullkomið jafnræði allra sjónarmiða á öllum póstum í öllum fjölmiðlum eða hvað það nú er en það eru ákveðnir þættir sem hægt er að hafa áhrif á, t.d. hefur ríkisútvarp sérstakar hlutleysisskyldur. Eins ef fjármunir hafa verið veittir úr opinberum sjóðum til þess að stuðla að kynningu að þá sé jafnræði í þeirri kynningu.

Síðan er auðvitað sjálfstætt efni að hve miklu leyti erlend ríki eða ríkjasambönd geta með fjárframlögum haft áhrif á kosningar sem fara fram hér á landi.