139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[16:43]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að tæpa á nokkrum atriðum varðandi breytingar á frumvarpi til laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Eins og fram kom í máli formanns allsherjarnefndar gætir nokkurs misræmis í lögum varðandi kynningu á málefnum sem borin eru undir þjóðaratkvæðagreiðslu þegar Alþingi ályktar og þegar þjóðaratkvæðagreiðsla skal fara fram á grundvelli 26. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta misræmi er svolítið — ja, það má kalla það pínlegt, því beinlínis er gert ráð fyrir að mál sem fara í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu fái meiri og betri kynningu en mál sem fara í stjórnskipunarlega þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta misræmi teljum við í Hreyfingunni brýnt að laga.

Fram undan er þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave-málið, önnur þjóðaratkvæðagreiðsla á u.þ.b. ári út af sama máli og verið er að breyta og setja lög svolítið á hlaupum varðandi einstök atriði og einstakar atkvæðagreiðslur. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Það eru eðlileg vinnubrögð í lýðræðisríki að opin umræða verði um það málefni sem á að greiða atkvæði um og ítarleg og víðtæk kynning á málefninu þarf að koma til. Varðandi Icesave finnst mér algjörlega ófullnægjandi sú kvöð í lögunum að ráðherrann sendi einfaldlega lögin inn á hvert heimili í landinu, það þarf miklu víðtækari kynningu en svo.

Við í Hreyfingunni höfum þar af leiðandi lagt fram þingsályktunartillögu um að innanríkisráðherra verði falið að láta útbúa hlutlaust kynningarefni um Icesave-þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fram undan er 9. apríl. Ég vek athygli á orðalaginu „láti útbúa“ en ráðherra útbúi það ekki sjálfur eins og menn virðast oft gera ráð fyrir. Ég hef rekið mig á það, frú forseti, að orðræðan meðal þingmanna og ráðherra er oft í þá veru að það sé einfaldlega ekki hægt að útbúa hlutlaust kynningarefni. Því hafna ég alfarið, það er einfaldlega fag að útbúa kynningarefni. Ég leyfi mér að benda á að í landinu eru sennilega u.þ.b. 20 þúsund kennarar sem vinna við það á hverjum einasta degi að matreiða efni ofan í nemendur þannig að það komist til skila. Hér á landi er fjöldi auglýsingastofa, kynningarstofa og rithöfunda og annarra sem færu létt með það þó að það mundi örugglega kalla á svolitla vinnu að útbúa ítarlegt kynningarefni um Icesave-málið þar sem málið er lagt fram og mismunandi sjónarmiðum eru gerð skil. Ég legg því mikla áherslu á, frú forseti, að allsherjarnefnd, í framhaldi af þjóðaratkvæðagreiðslunni, fari rækilega yfir það í samvinnu við forsætisnefnd væntanlega og Alþingi svo og innanríkisráðherra með hvaða hætti þessu verði gerð skil í lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

Við í Hreyfingunni höfum í þrígang flutt frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur þar sem gert er ráð fyrir sérstöku stjórnsýsluapparati sem við köllum Lýðræðisstofu og mundi m.a. hafa það hlutverk að útbúa og kynna efni fyrir þær þjóðaratkvæðagreiðslur sem haldnar verða. Ég held að við séum komin inn í það umhverfi að við munum sjá fleiri frekar en færri þjóðaratkvæðagreiðslur á næstu árum. Við höfum fram undan stjórnarskrárbreytingar, við höfum fram undan ESB-mál. Vonandi munu stjórnarskrárbreytingarnar sjálfar leiða til þess að meira verður um þjóðaratkvæðagreiðslur en áður. Það er því mjög brýnt að þessi mál séu í fastari og betri farvegi en þau eru núna.

Það er að vísu ánægjulegt og ég leyfi mér að geta þess úr ræðustól, frú forseti, að ég fékk skilaboð um það áðan að á morgun í hádeginu verði sameiginlegur fundur forsætisnefndar, formanna þingflokkanna og innanríkisráðherra þar sem farið verður í sameiningu yfir það hvernig Icesave-málið verður kynnt fyrir þjóðinni fyrir kosninguna 9. apríl. Það er stórt skref í rétta átt. Ég vona innilega að sá fundur leiði til þess að almenningur í landinu fái ítarlega og víðtæka kynningu á báðum hliðum málsins. Það er ótækt að menn gangi fram með þeim hætti eins og sumir virðast hafa ætlað sér að gera og kynna málið einhliða. Það er Alþingi til mikils sóma ef hægt er að koma því við að Icesave-málið verði kynnt með betri hætti.

Sú breyting um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna sem menn hafa rætt í dag er til bóta og einfaldar hlutina og gerir beinlínis ráð fyrir því að talningu ljúki fyrr og talning gangi betur og verði öruggari. Ég er sjálfur stuðningsmaður þessa máls og er feginn því að það er komið í gegn og þetta langt. Einu megum við þó ekki gleyma en það er að í framtíðinni verður að gera ráð fyrir að þessir hlutir gangi hraðar fyrir sig. Nú þegar eru dæmi um að sjómenn séu farnir út á sjó og fái ekki að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni, kjörgögnin eru ekki til, kynningin er ekki til í tíma. Þennan hluta af umgjörðinni um þjóðaratkvæðagreiðslur þarf því að lagfæra líka. Ég vona að þjóðaratkvæðagreiðslan núna á vordögum 2011 muni leiða til þess að við færum þessi mál í betra horf í framtíðinni.