139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[16:53]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er algjörlega sammála honum um þetta efni og ég tel að mikilvægt sé í þessari umræðu að menn geri sér grein fyrir því að lagatextinn sem hér um ræðir, um þjóðaratkvæðagreiðslu sem boðað er til á grundvelli ákvörðunar forseta Íslands að synja lögum staðfestingar, segir í sjálfu sér ekki mikið um það sem undir er í málinu. Hann fjallar einungis um heimild til handa fjármálaráðherra að staðfesta ákveðna samninga. Það er því mjög mikilvægt, svo málið sé eins vel úr garði gert og hægt er til undirbúnings þjóðaratkvæðagreiðslu, að öll meginatriði og efnisatriði málsins séu tekin saman á greinargóðan hátt. Það má gera á hlutlausan hátt. Það má auðvitað líka gera með því að taka saman helstu rök þeirra sem tala fyrir málinu og helstu rök þeirra sem tala gegn því. En umfram allt finnst mér mikilvægt að fram fari fagleg kynning á málefninu, helst á eins hlutlausan hátt og hægt er, þannig að almenningur geti tekið afstöðu til þess.

Þetta hefur verið mitt viðhorf. Ég veit að um þetta eru auðvitað skiptar skoðanir og að sjálfsögðu er þetta vandmeðfarið því alltaf er mjög auðvelt að tortryggja þá sem eiga að sjá um svona kynningu. En í þessu tilfelli lít ég þannig á að þetta sé mál sem ríkisstjórnin bar fram og umtalsverður meiri hluti Alþingis samþykkti og frá mínum bæjardyrum séð er ekkert að því að þeir sem lögðu málið fram og stóðu að því, komi málflutningi sínum og rökum sínum til skila til þjóðarinnar. Mér finnst það eðlilegt á sama hátt og þeir sem vilja síðan berjast gegn því gera það á sínum forsendum.

Hér finnst mér það meitlað í stein í nefndaráliti allsherjarnefndar að innanríkisráðuneytið hafi heimildir til að standa að ítarlegri kynningu en þeirri sem lágmarksákvæði laganna kveða á um og það finnst mér skipta miklu máli.