139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Að meginefni erum við sammála og ég deili áhyggjum hans af því að hér sé jafnvel lagt til að það eigi að senda málið fyrir tvö dómstig. Svo er bara því miður ekki. Hér er búið að taka út hæstaréttarleiðina samkvæmt breytingartillögu sem er tölusett nr. 3, að í stað 13. gr., eins og það kemur fram í lögunum um þjóðaratkvæðagreiðslur, er kjósanda gert fært að senda kæru til Hæstaréttar að fenginni umsögn landskjörstjórnar. Greinin á að líta svona út í breyttu frumvarpi, með leyfi forseta:

„Kærur um ólögmæti atkvæðagreiðslunnar, aðrar en refsikærur, skulu sendar landskjörstjórn til úrlausnar eigi síðar en tveimur dögum fyrir fund þann sem getið er um í 1. mgr. 10. gr.“

Hér er búið að þurrka út úr lögunum Hæstarétt og kæruleiðina til hans. Því spyr ég þingmanninn, af því að hann talaði um að kærur skyldu lúta almennum reglum um kosningar: Er þingmaðurinn að tala um að samkvæmt þessum þjóðaratkvæðagreiðslulögum verði þá t.d. farið með kæruna til sýslumanns eins og í sveitarstjórnarkosningunum sem sendir þetta til innanríkisráðuneytis? Í alþingiskosningum er það Alþingi sjálft sem úrskurðar hvort kosningar séu gildar eða ógildar. Í forsetakjöri eru þær kærur, komi til þess, sendar til Hæstaréttar. Og ég legg til með breytingartillögu að þessi breytingartillögugrein falli niður og þá standi eftir hæstaréttarleiðin eins og er fyrir í lögunum.

Í hvaða almennu reglur um kærur í kosningum var þingmaðurinn að vísa? Hér er búið að þurrka út úr lögunum öllum og þeim breytingartillögum sem hér á að fara að samþykkja allt um kærur til Hæstaréttar.