139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[18:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera stuttlega grein fyrir framhaldsnefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar. Það er ekki lagt fram bréflega heldur flyt ég það af munni fram svo menn geti áttað sig á þeirri umfjöllun sem fram fór á stuttum fundi á vegum nefndarinnar.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir óskaði eftir því að málið yrði kallað inn til nefndar milli 2. og 3. umr. vegna þess sem fram kom í umræðunni, að hún hefði áhyggjur af kæruleiðum sem gert er ráð fyrir í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar.

Ég ítreka sérstaklega, vegna þeirrar umræðu sem fram fór fyrr í dag, að miðað við þá breytingartillögu sem við samþykktum er gert ráð fyrir því að kærur um ólögmæti atkvæðagreiðslu aðrar en refsikærur skuli sendar landskjörstjórn til úrlausnar eigi síðar en tveimur dögum fyrir fund þann sem getið er um í 11. mgr. 10. gr. laganna. Gallar á kosningu leiða ekki til ógildingar kosninga nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.

Hvað þetta varðar er það alveg skýr skilningur meiri hluta nefndarinnar að Hæstiréttur hefur lokaorðið, hann hefur úrslitavaldið þegar kemur að því að leysa úr ágreiningi sem upp kann að koma, eða eins og segir í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Dómstólar eiga svo úrskurðarvald um gildi ákvörðunar landskjörstjórnar í samræmi við almennar reglur ef á reynir.“

Það er nákvæmlega eins og gert var í sérlögum sem sett voru um þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samningana nr. 2 sem fram fór á síðasta ári. Það reyndi reyndar ekki á þau ákvæði en engu að síður er þetta nákvæmlega eins og þá var gert. Það er skoðun nefndarinnar að þetta sé skotheld leið til að tryggja að um kosningarnar gildi þær leikreglur sem ásættanlegar eru í lýðræðislegum kosningum.

Málið var tekið úr allsherjarnefnd á milli 2. og 3. umr. og leggur meiri hluti nefndarinnar til að það verði samþykkt eins og það liggur fyrir núna í atkvæðagreiðslu sem fer væntanlega fram á eftir, eftir að breytingartillögu frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur hefur verið dreift, að áorðnum þeim breytingum sem samþykktar voru áðan.