139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[18:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Helstu rökin fyrir því eru þau að við vorum komin nokkuð langt í þeirri vinnu sem fram hafði farið í þessu máli. Við styðjumst hér við þá framkvæmd sem dugði vel í kosningunum á síðasta ári og þar var með sama hætti gert ráð fyrir þessu kæruferli og vísað í hina almennu dómstólaleið þegar kom að ágreiningsefnum. Við framkvæmum þetta með sama hætti nú og gert var fyrir ári. Það eru kannski ekki afgerandi rök í sjálfu sér, en við meðferð málsins innan nefndarinnar skapaðist góð samstaða um þennan framgang. Breytingartillögurnar komu seint fram og það flækti vinnslu málsins alls. Það dugar að gera þetta með þessum hætti. Eins og fram kom í ræðu þingmanns hér áðan er hægt að líta til nefndarálitsins sem lögskýringargagns. Þess vegna var látið duga að hafa þetta styttra frekar en lengra. Það er skýringin á þessu og þar við situr.

Það er rétt sem fram kom í máli hv. þingmanns, þetta eru ekki stórvægilegar breytingar en það er blæbrigðamunur og þá verður að höggva á hnútinn. Þá verður að ákveða hvora leiðina á að fara þegar ekki er sátt um það innan nefndarinnar. Það var tillaga mín sem formanns nefndarinnar að þessi leið yrði farin og það er lagt til hér. Þess vegna er þetta mál nú statt í þessari umræðu sem er um afar smávægilega hluti að mínu mati.