139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[18:41]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hér er með breyttum lögum um þjóðaratkvæði búið svo um hnúta að það verður talið heima í kjördæmum í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram mun fara 9. apríl nk. eins og verið hefur, eins og við þekkjum hvað best, og talningin færð í hendur þeirra sem reynsluna hafa og þekkinguna í kjördæmunum.

Hér er byggt á góðri reynslu og þekkingu og einnig á þeim lögum sem voru sett sérstaklega um þjóðaratkvæðagreiðslu af sama tilefni, lögum nr. 4/2010. Ég fagna þessari lagasetningu, þarna er stigið ákveðið skref til baka, en tel að við verðum að fara að endurskoða alla kosningalöggjöfina okkar og þessi tæknilegu atriði. Ef ágreiningur rís um niðurstöðu landskjörstjórnar má áfrýja honum til héraðsdóms og þaðan til Hæstaréttar sem er áfrýjunardómstóll samkvæmt stjórnarskrá Íslands.