139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar talað er um þetta mat Róberts Spanós prófessors, Ragnhildar Helgadóttur prófessors, Sigurðar Líndal prófessors og raunar Eiríks Tómassonar prófessors líka, þá er það mat allra þeirra, eins og kom fram á fundum í allsherjarnefnd, annars vegar í lok janúar og hins vegar nú í síðustu viku, að verið væri að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar með því að fara þá leið sem hér er um ræða.

Ég bendi bara á þetta. Ég bendi á að þetta eru háskólakennarar í lögfræði, þar á meðal í stjórnskipunarrétti, sem eru sérstaklega þjálfaðir að fjalla um mál af þessu tagi sem túlka niðurstöður með þessum hætti. Ég hef ekki heyrt gagnstæð rök af hálfu fræðimanna í þessum málum, ég hef ekki heyrt það.

Ef við tökum líkinguna frá árinu 2004, af því að hún er hv. þm. Róberti Marshall nokkuð hugleikin, getum við sagt að staðan nú og þá væri að einhverju leyti sambærileg fyrir utan alls konar fleiri þætti. Ef Alþingi hefði fellt fjölmiðlalögin úr gildi en sett síðan ný undir öðrum formerkjum, með einhverjum minni háttar útlitsbreytingum, til að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslunni værum við að tala um sambærilega hluti en ekki þegar sú ákvörðun sem Alþingi tók og forseti synjaði var einfaldlega felld úr gildi og látin verða að „núllíteti“. (Forseti hringir.)

Hér er um það að ræða að ætlunin er að láta stjórnlagaþingið starfa áfram, bara undir nýjum formerkjum.