139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[20:22]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka það fram strax í upphafi í þessu andsvari að mér finnst ákvörðun Hæstaréttar um að ógilda kosningu til stjórnlagaþings ákaflega umdeilanleg. Mér finnst hún háð mörgum annmörkum og það hafa margir farið í saumana á henni. Hins vegar dettur mér ekki í hug annað en að bera virðingu fyrir þeirri niðurstöðu.

Hv. þingmanni er tíðrætt um hvernig við eigum að bera virðingu fyrir þessari niðurstöðu og mig langar að eiga smásamræðu við hann um það. Ég tel að þingheimur beri virðingu fyrir úrskurði Hæstaréttar, ákvörðun hans, þó að mörgum þingmönnum kunni að finnast hann umdeilanlegur með því að þeir sem voru kosnir til stjórnlagaþings fá ekki kjörbréf og það verði í rauninni ekki haldið stjórnlagaþing.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, vegna þess að honum eins og mér er umhugað um að við berum virðingu fyrir ákvörðun Hæstaréttar, hvaða leiðsögn hann finnur í ákvörðun Hæstaréttar svo að okkur megi verða auðveldara að bera virðingu fyrir henni? Segir Hæstiréttur einhvers staðar hvað við eigum að gera? Ég hef nefnilega lesið ákvörðun Hæstaréttar í því ljósi og ég sé ekki að Hæstiréttur gefi nokkra leiðsögn til Alþingis um hvernig við berum best virðingu fyrir þessum úrskurði. Hæstiréttur fer t.d. ekki fram á að það verði kosið aftur.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sjái þessa leiðsögn í úrskurði Hæstaréttar, þegar hann les Hæstarétt, hvernig hann sér best að við berum þá virðingu fyrir þeim úrskurði. Mig langar líka að spyrja hv. þingmann af hverju hann telur að sú leið sem hann boðar, að efna einfaldlega ekki til stjórnlagaþings og fara bara í allt annað ferli en lagt var upp með, feli í sér þessa virðingu fyrir niðurstöðu Hæstaréttar.