139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[20:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki viss um að hv. þingmaður hafi alveg skilið það sem ég var að segja í ræðu minni áðan og ég hef ábyggilega ekki sagt það nógu skýrt. Það sem ég er að benda á er það að Hæstarétti var falið að fjalla um lögmæti kosninga. Hæstiréttur mat kosningarnar ógildar. Við getum haft alls konar skoðanir á því en það er niðurstaðan. Hæstiréttur mat lögum samkvæmt kosningarnar ógildar.

Þessi tillaga gengur út á það að láta kosningaúrslitin standa engu að síður með minni háttar fegrunaraðgerð eða útlitsbreytingu, hárlitun eða einhvers konar tannaðgerð á því fyrirbæri sem kosið var til. Það er verið að breyta útlitinu í minni háttar atriðum. Í öllum aðalatriðum, eins og ég varði löngum tíma í að fjalla um í ræðu minni, er um að ræða nákvæmlega sama fyrirbærið og áður. Stjórnlagaráð og stjórnlagaþing eru sama samkoman með minni háttar útlitsbreytingum og í því felst auðvitað sniðgangan gagnvart niðurstöðu Hæstaréttar. Í því felst að verið er að láta eins og Hæstiréttur hefði ekki komist að þessari niðurstöðu. Það er verið að reyna að tryggja framhald málsins þannig að halda verkefninu áfram eins og ekkert hafi í skorist, eins og Hæstiréttur hefði ekki ógilt kosninguna, eins og hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni hefði orðið að þeirri ósk sinni að Hæstiréttur hefði komist að annarri niðurstöðu.