139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[20:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er hv. þm. Róbert Marshall að biðja mig að gefa meiri hluta, sem ég tilheyri ekki, einhver ráð um hvernig þeir eigi að haga ákvörðunum sínum. Ég vildi að hann hlustaði oftar á mig í þessum efnum en staðan er auðvitað sú, tel ég, eins og ég sagði í andsvari við hv. þm. Guðmund Steingrímsson rétt áðan, að eftir niðurstöðu Hæstaréttar hafi í sjálfu sér ýmsir kostir verið í stöðunni, ýmsir kostir færir. Ég gat þess reyndar strax í upphafi, sama dag og niðurstaða Hæstaréttar kom, úr þessum ræðustól að ég teldi ótækt að fara þá leið sem liggur fyrir í þessari þingsályktunartillögu þannig að sú afstaða mín hefur alltaf legið fyrir.

En það voru ýmsar leiðir í stöðunni eins og ég rakti. Ein er sú að hafa einhvers konar uppkosningu, þ.e. endurtekningu kosningar á grundvelli sömu reglna eða sömu laga. Önnur aðferð væri að láta kjósa að nýju eftir endurskoðun laganna, eftir atvikum talsvert viðamikla, sem ég hefði reyndar talið að væri ástæða til en það er önnur saga.

Þriðja leiðin er auðvitað sú að breyta um kúrs, taka U-beygju ef við köllum það það, hætta við stjórnlagaþingið sem samkomu og velja einhverja aðra leið til að endurskoða stjórnarskrána. Það er sú leið sem við sjálfstæðismenn í allsherjarnefnd höfum bent á og gerum í nefndaráliti okkar, og bendum á að sé trúlega skilvirkasta, fljótlegasta og alveg örugglega ódýrasta leiðin til að sinna þessu verkefni fyrst hv. þm. Róbert Marshall nefndi fjárhagsþáttinn.