139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[20:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég leitaði eftir svörum við þessu vegna þess að það hefur legið fyrir allan tímann meðan um þetta mál hefur verið fjallað að hv. þingmaður er andvígur hugmyndinni um stjórnlagaþing eða stjórnlagaráð. Niðurstaða Hæstaréttar breytti að sjálfsögðu ekki neinu um afstöðu þingmannsins í þeim efnum heldur styrkti sennilega miklu fremur trú hans og sannfæringu í málinu ef eitthvað er. Þess vegna spyr ég og leita eftir áliti hv. þingmanns á því ef við gefum okkur einfaldlega að það sé vilji meiri hluta Alþingis að gera þetta burt séð frá skoðunum hv. þingmanns: Með hvaða hætti hefði þá verið eðlilegast að bregðast við niðurstöðu Hæstaréttar? Það er ágætt að það liggi fyrir ef það er skoðun hv. þingmanns, vegna þess að meðal þess sem gagnrýnt hefur verið í málinu er sá kostnaður sem fylgir því, að grípa hefði átt engu að síður til annarra kosninga með tilheyrandi kostnaði. (Gripið fram í.) Það er rétt hjá hv. þingmanni. Ég er einfaldlega að spyrja hv. þingmann út frá þeirri forsendu að það er vilji meiri hluta Alþingis að halda stjórnlagaþing og grípa til endurskoðunar. [Kliður í þingsal.] Er það þá rétt skilið hjá mér að hv. þingmaður hefði ekki átalið þann kostnaðarauka sem falist hefði í því (VigH: Finnst þér réttlætanlegt …?) að halda aðrar kosningar um þetta tiltekna mál?

(Forseti (ÁI): Forseti biður þingmenn vinsamlegast um að hafa hljóð í salnum.)