139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[21:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Eins og kemur fram í nefndaráliti hv. þingmanns voru það einungis 37% kosningarbærra manna sem tóku þátt í kosningunni, sem er mjög lítil kosningaþátttaka, og það voru einungis 1,9% þjóðarinnar sem nefndu það í könnun á vegum Capacent að þau teldu mjög mikilvægt að stjórnlagaþingið yrði haldið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Getur hún verið sammála mér um það að þetta sé enn eitt málið þar sem staðfest er í hversu litlu sambandi ríkisstjórnin er við almenning í landinu? Hver er ástæðan? Er verið að reyna að draga athyglina frá getuleysi ríkisstjórnarinnar í öðrum mikilvægum málum?

Í öðru lagi kom fram í máli hv. þingmanns og kemur fram í nefndaráliti að minnisblað hafi komið inn á borð allsherjarnefndar frá fulltrúum yfirkjörstjórnar þar sem „sumir innsláttaraðilar stunduðu „skapandi“ úrlestur, giskuðu á tölu, og breyttu svo passaði við frambjóðanda.“

Síðan kemur til viðbótar, með leyfi forseta:

„Þess ber að geta að kerfið bauð upp á öllum tölum yrði breytt svo tæknilega séð gátu innsláttaraðilar skráð þá tölu sem þeim hugnaðist.“

Ég verð að viðurkenna að þegar ég las þetta í nefndarálitinu var mér brugðið. Því vil ég spyrja hv. þingmann: Hvernig var umfjöllunin um þetta í nefndinni? Vegna þess að það kom fram í máli hv. þingmanns að þetta hafi borist á síðustu stundu til nefndarinnar.

Síðan vil ég taka undir með hv. þingmanni um það sem kemur hér fram að kostnaðurinn er þegar orðinn 500 milljónir. Ef haldið verður áfram og þessi þingsályktunartillaga samþykkt þá bætast 600 milljónir við. Það er mjög sláandi eftir þá umræðu sem var hér í gær og í dag um að nú sé búið að segja upp um 540 stöðugildum hjá ríkinu, þar af 470 konum. Getur hv. þingmaður (Forseti hringir.) tekið undir það með mér að mun skynsamlegra væri að ráða frekar konur aftur inn á heilbrigðisstofnanirnar en að bruðla því í þessa vitleysu hér?