139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[21:20]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, hlutirnir hafa breyst svo mikið undanfarin nokkur ár að nú er það svo að allir stjórnmálaflokkarnir á Alþingi að Framsóknarflokknum undanskildum vilja taka úr sambandi ákvæði 26. gr. Ég vil ekki gera það fyrr en tryggt er að það sé einhver öryggisventill í stjórnarskránni sem leiði til þess að hægt sé að senda mál í þjóðaratkvæðagreiðslu, enda hefur þessi öryggisventill heldur betur sannað sig í Icesave-málinu og sparað þjóðinni a.m.k. 450–500 milljarða í gjaldeyri. Við skulum ekki gleyma því.

Ég þakka þingmanninum fyrir að bregðast svo vel við þeirri breytingartillögu sem er að finna í nefndaráliti mínu. Það er nú svo að þegar fólk er kjörið á þing verður það að sýna ábyrga hegðun í lagasetningu. Ég er talsmaður lagaskrifstofu Alþingis og vandaðrar lagasetningar. Stjórnarandstaðan má ekki bara gagnrýna og þess vegna hef ég alltaf haft það að meginmarkmiði að koma með breytingartillögur að þeim ónýtu málum sem koma inn í þingið frá ríkisstjórninni og ríkisstjórnarflokkunum. Þannig hefur lífið verið eftir að ég var kosinn þingmaður. Ég hef setið uppi eins og aðrir þingmenn með þessa verklausu vinstri stjórn og maður reynir hvað maður getur.

Breytingartillaga mín gengur raunverulega út á það, svo ég útskýri það hér, að ég lít svo á að stjórnlaganefnd, sú sjö manna nefnd sem kosin var af Alþingi í fyrrasumar, sé búin að safna saman öllum þeim upplýsingum, og það var markmið hennar, sem þegar hafa verið skrifaðar og eru til um stjórnarskrármálefni. Stjórnlaganefnd hefur úrslit þjóðfundar, stjórnlaganefnd hefur úrslit stjórnarskrárnefndar sem Jón Kristjánsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, fór fyrir. Ég tel að stjórnlaganefnd sé sá aðili sem (Forseti hringir.) býr yfir mestu þekkingunni nú vegna þess að nefndin hefur verið að safna að sér gögnum um allt það sem skrifað hefur verið um þessi málefni síðustu ár.