139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[21:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf kannski að skerpa á síðari spurningunni. Hún gengur út á að flokksmenn hv. þingmanns, hv. þingmenn Vinstri grænna, hafa oft sagt að einkavæðing bankanna og það að þeir voru einkabankar, væri orsökin að hruninu. Nú erum við að fjalla um ríkisbanka sem starfar eftir mjög ströngum skilyrðum og er með ríkisábyrgð á öllum útlánum sínum en lendir nú í miklum vandræðum. Hann færi beint á hausinn ef við mundum ekki bæta við 48 milljörðum. Spurning mín til hv. þingmanns er: Er þá röksemdin ekki farin fyrir því að rekstrarformið hafi valdið hruninu?

Svo langaði mig til að spyrja hv. þingmann út í afskriftirnar sem við fengum upplýsingar um og eiga að stafa af vandræðum vegna verðbólgunnar. Ég get ekki séð að verðbólga sé orsökin að vandanum, afskriftaþörfinni, vegna þess að þau dæmi sem við höfum fengið sýna ekki að vandinn sé út af verðbólgunni eða verðtryggingunni heldur er eitthvað allt annað á seyði. Enda kemur í ljós að 70% af afskriftaþörfinni er vegna eigna á landsbyggðinni. Það kemur fram í yfirliti frá Íbúðalánasjóði.

Það er eitthvað skrýtið með klukkuna, herra forseti, mér sýnist að hún tikki upp þannig að ég hef endalausan tíma. Það gleður mig.

(Forseti (KLM): Forseti vissi að klukkan var biluð en þingmaðurinn átti eftir smátíma. Klukkan taldi upp að þessu sinni.)