139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

fjarskipti.

136. mál
[22:20]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal spyr um takmörkun á tíðnisviðinu, hvernig það hafi verið takmarkað og í því tilviki hvernig farið verði með þetta sem auðlind og þá verðmæti sem það vissulega er nú þegar í dag. Í dag er greitt talsvert hátt gjald fyrir tíðnisviðið og m.a. snerist lagasetningin á síðasta hausti um það. Breyting á lögum sem samgöngunefnd tók sig saman um að leggja til og varð að lögum í haust gengur út á að fyrir úthlutun á tíðniréttindum skuli taka sérstakt gjald sem nemur 1,5 millj. kr. fyrir hvert úthlutað megahertz af tíðnisviði og síðan eftir því á hvaða sviðum það er. Þetta var vissulega rætt í nefndinni, þá sérstaklega hvernig ætti að fara með þessi réttindi. Þetta var m.a. rætt í samhengi við önnur réttindi sem úthlutað er í dag, ýmist gegn gjaldi eða án gjalds. Eitthvað barst í tal í því sambandi auðlindanýting til sjávar.

Í þeim breytingum sem gerðar voru á frumvarpinu eins og það hljóðaði áður en nefndin tók það til umfjöllunar segir, með leyfi forseta:

„Réttindi samkvæmt þessari grein eru bundin við nafn og er framsal óheimilt nema annað sé sérstaklega tekið fram við úthlutun þeirra eða í reglugerð.“

Þetta er einn af þeim hlutum sem féll út úr frumvarpinu við skoðun nefndarinnar um innleiðingu EES-reglna varðandi það að heimilt sé að framselja þau réttindi sem menn fá úthlutað gegn gjaldi.

Við þurfum vissulega að taka þessi mál aftur (Forseti hringir.) til umfjöllunar í haust, þá koma þessar reglugerðir væntanlega aftur til umfjöllunar og þá verður illt að víkjast undan þeim.