139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

fjarskipti.

136. mál
[22:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega er tekið ákveðið gjald og það er tiltekið í lögunum hvert það á að vera. Það er svipað eins og ákveðið væri í lögum hvað þorskígildistonnið kostaði. Það sem vantar inn í er spurningin: Hvað gera menn ef 100 aðilar bjóðast til að borga þetta gjald fyrir ákveðið tíðnisvið? Og hvað ef allir reiða fram þær 30 milljónir eða hvað það nú er sem þarf? Hvernig taka menn á slíkum vanda og leysa hann? Verður happdrætti, á að vera uppboð, hver á þá að fá það sem er umfram uppsett verð o.s.frv.?

Mér finnst að menn þurfi að hugsa þetta til framtíðar. Mér sýnist það á öllu þegar ég horfi á framboð á GSM-símum sem hefur breyst alveg gífurlega á síðustu 10 árum. Ég þori varla að hugsa 10 ár fram í tímann hversu mikið þurfi af svona tíðnisviði.

Hv. þingmaður svaraði því ekki hvað menn ætla að gera með persónuupplýsingarnar. Praktískt séð getur símafyrirtæki vitað nákvæmlega hvar ég er staddur í gegnum gemsann minn, m.a.s. upp á 2. hæð eða hvar það nú er. Ef hann hlerar samskiptin er hægt að finna hvar tiltekinn maður er staddur og við hvern hann er að tala. Það eru til tæki í tölvum sem greina raddir. Þetta var víst gert til að leita að einhverjum eiturlyfjabaróni í Suður-Ameríku, ég þori ekki að fara alveg með það, en þeir hleruðu bara öll símtöl í borginni í tvo mánuði eða svo. Svo hringdi vinurinn í systur sína og þá fundu þeir hann um leið. Þetta gefur alveg gífurlega möguleika til persónunjósna. Ég spyr hv. þingmann hvort það hafi verið hugleitt eitthvað í nefndinni.