139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

fjarskipti.

136. mál
[22:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um fjarskiptaáætlun ef tillaga samgöngunefndar um breytingu á orðum verður samþykkt, þ.e. að þetta muni heita fjarskiptaáætlun en ekki samskiptaáætlun.

Þetta mál kom inn í þingið upphaflega mjög seint í desember. Strax komu mjög miklar athugasemdir við það og fór meiri hluti nefndarinnar þá leið að flytja tillögu um að gera breytingar þannig að þeim gjaldskrárhækkunum sem stóðu til yrði flýtt og síðan var málið áfram til umfjöllunar núna í vetur.

Sú gagnrýni sem kom helst fram á þetta frumvarp var um að það fæli í sér innleiðingu á Evrópugerðum sem ekki væru orðnar hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þó væru téðar gerðir ekki innleiddar í heild sinni heldur væru einstaka ákvæði þar tekin út en öðru sleppt þó að af þeim sökum væri hætta á að heildarsamræmi aðgerðanna glataðist, áherslur þeirra skekktust og markmið þeirra næðu ekki fram að ganga. Þá kom fram sú skoðun að ýmis ákvæði frumvarpsins stönguðust á við gildandi EES-rétt.

Nefndin brást við þessu og tillögur hennar um breytingar fela í sér þá meginstefnu að brott falli þau ákvæði sem fela í sér beina innleiðingu ákvæða Evrópugerða sem ekki eru þegar orðnar hluti EES-samningsins. Þessu var breytt í meðförum nefndarinnar og eins og ég sagði hér kom fram mjög hörð gagnrýni frá umsagnaraðilum gagnvart þessum hlutum. Síðan brugðust fulltrúar frá Póst- og fjarskiptastofnun við með þeim hætti að þeir féllust á að þessar breytingar yrðu gerðar á frumvarpinu og þá kæmi inn í haust viðbótarpakki um breytingar á EES-regluverkinu. Þá kæmi hann inn í heild sinni þannig að menn hefðu í fyrsta lagi miklu meiri yfirsýn yfir hvað væri verið að gera og þá gæti líka Póst- og fjarskiptastofnun unnið það betur upp í hendurnar á samgöngunefnd og þinginu til að menn gætu tekið markvissari ákvörðun í að breyta þessu.

Ég kem líka hérna upp til að þakka hv. þm. Birni Vali Gíslasyni, formanni nefndarinnar, hvernig haldið var á þessu máli í nefndinni. Ég tel til fyrirmyndar þau vinnubrögð sem voru viðhöfð við afgreiðslu þessa máls og vænti þess að það verði svo áfram í hv. samgöngunefnd. Mörg þeirra mála sem hafa komið þar út, og nánast öll, hafa verið unnin í mikilli sátt og samvinnu allra nefndarmanna og undantekningarlaust verið tekin út ágreiningslaust.